fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líkist helst fiskinum í teiknimyndinni um Nemó litla

14. júlí 2011 kl. 13:00

Þrjár svartgómur ásamt gullkarfa. (Mynd: Áhöfnin á Kristínu ÞH)

Kristín ÞH veiddi svartgómu á línu á Öræfagrunni

Áhöfnin á Kristínu ÞH hefur fengið einkennilegan afla á línu undanfarið. Um er að ræða fisk sem kallast svartgóma (Helicolenus dactylopterus) og líkist karfa en er minni. Tegundin veiðist sem slæðingur suður og suðvestur af landinu, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Ólafur Óskarsson, skipstjóri og stýrimaður á Kristínu ÞH, segir í samtali við Fiskifréttir, að þeir hafi fengið tæp tvö kör af svartgómu á Öræfagrunni. Í fyrstu héldu þeir að þetta væri litli karfi. ,,Kvikindinu svipar mjög til karfa og líkist einnig helst fiskinum í teiknimyndinni um Nemó litla og við vorum dauðsmeykir um að við hefðum veitt hann.“

Heimkynni svartgómu eru aðallega í Miðjarðarhafi og austanverðu Norður-Atlantshafi en hún dreifist víða. Fyrsti skráði fundur svartgómu við Ísland er í Rósagarðinum í apríl 1953. Slæðingur af henni hefur veiðst suður og suðvestur af landinu og hugsanlega er henni að fjölga með hlýnandi sjó.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.