mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lisbeth Berg-Hansen skammar norska útgerðarmenn

14. febrúar 2013 kl. 15:57

Lisbeth Berg-Hansen

Segir þá landa loðnu og kolmunna á Íslandi og í Færeyjum á meðan landvinnslan í Noregi tapi hráefni vegna löndunarbanns á makríl

 

Það er vægast sagt mjög óheppilegt að norsk skip landi afla á Íslandi og í Færeyjum, sagði Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Norðmanna, í ræðu á aðalfundi samtaka norskra útvegsmanna.

Ráðherrann lagði áherslu á mikilvægi löndunarbanns á makríl sem sett var á íslensk og færeysk skip. Hún skammaði norska útvegsmenn fyrir að láta skip sín landa loðnu og kolmunna í íslenskum og færeyskum höfnum. Meira hefði verið um slíkt en í fyrra. Norsk skip hefðu meira að segja siglt með loðnu úr Barentshafi til Færeyja.

Hún sagði að landvinnslan í Noregi hefði tekið þátt í löndunarbanni á makríl af mikilli trúmennsku. Því væri mikilvægt að fiskiskipaflotinn sýndi sömu trúmennsku og landaði afla sínum í Noregi til að vega upp á móti hráefnistapi vegna löndunarbannsins.