mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítið af loðnu fundist ennþá

26. janúar 2009 kl. 13:59

Árni Friðriksson leitar austur af landinu

,,Við höfum ekki séð mikið af loðnu ennþá og það sem mælst hefur dugar ekki til þess að gefinn verði út kvóti. Núna í augnablikinu erum við staddir í kantinum rétt norðan við Gletting og erum í dálitlum torfum. Þetta er heldur meira en hingað til en mæling er ekki hafin,” sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í samtali við Fiskifréttir klukkan 13,45 í dag. 

Síðustu daga hefur skipið verið fyrir austan land í góðu veðri. Byrjað var úti frá suðausturhorni landsins og er leitað norður með kantinum úti af Austfjörðum. Syðst fannst loðna á 64°30 djúpt austur úr Hvalbaknum. Sveinn sagði að vissulega væri loðna í kantinum en enginn kraftur hefði verið í lóðinu hingað til. Skipið mun halda áfram norður á bóginn.

Fyrr í þessum mánuði fannst loðna á svæðinu frá Sléttu og austur fyrir Langanes. Sveinn taldi ekki að sú loðna sem þá varð vart við væri gengin suður fyrir það svæði sem rannsóknaskipið byrjaði á núna, enda hefði verið stórt loðnulaust svæði sunnan við staðinn þar sem loðnan fannst syðst.