þriðjudagur, 20. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítið um þorsk og erfitt tíðarfar

25. september 2020 kl. 11:03

Akurey AK. Mynd/Brim

Ekki hægt að beita tveimur trollum vegna brælu - þorskur virðist vera að hverfa af miðunum úti fyrir Norðurlandi. Vestfjarðamið líklega næst hjá Akurey.

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til hafnar á Sauðárkróki á fjórða tímanum í gær en togarinn var að ljúka fjögurra daga veiðiferð á miðin úti fyrir Norðurlandi. Að sögn skipstjórans, Magnúsar Kristjánssonar, var lítið um þorsk á slóðinni og erfitt tíðarfar torveldaði veiðar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Brims.

„Það brældi mikið og þá einkum síðustu dagana. Við byrjuðum á því að nota tvö toll en eftir að veðrið versnaði til muna þá var ekki hægt annað en að toga með einu trolli,” segir Magnús í viðtali við heimasíðuna.

Akurey hefur verið á Norðurlandsmiðum frá því í lok júní og Magnús segir að lengst hafi þorskur verið á svæðinu.

„Nú virðist þorskurinn vera að hverfa og það er ekki mikið um annan afla. Núna erum við með 65 tonna afla og þar af þorskaflinn meiri en 50 tonn. Við fórum austur á Sléttugrunn til að leita fyrir okkur en annars vorum við mest hér úti af Skagafirði. Mér kæmi ekki á óvart þótt við yrðum næst sendir á Vestfjarðamið en það kemur bara í ljós,” segir Magnús.