sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítil sem engin kolmunnaveiði í tvo daga

30. maí 2018 kl. 15:13

Beitir NK - skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Mynd/Hákon Ernuson

Skipin leita en áhafnir búa sig undir sjómannadagshátíðarhöld.

Kolmunnaskipin sem eru að veiðum í færeysku lögsögunni hafa lítið fengið síðustu dagana, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. 

Beitir NK og Börkur NK eru að leita norðan við Færeyjar og hefur lítið komið út úr því ennþá. Beitir er kominn með 1.700 tonn og Börkur um 1.500. 

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir í viðtali við heimasíðuna að veiðin hafi verið fín í upphafi veiðiferðarinnar en síðan hafi hún algerlega dottið niður. 

„Við stefnum núna í Rósagarðinn og ef ekkert finnst verður án efa fljótlega haldið heim á leið þar sem menn munu taka þátt í sjómannadagshátíðarhöldum í blíðunni. Auðvitað er sjálfsagt að nota tímann til að leita, en veiðin hefur nánast engin verið síðustu tvo dagana,“ segir Tómas.

Margrét EA kom í morgun til Seyðisfjarðar og mun landa þar um 1.700 tonnum og Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi þar sem hann landaði 1.800 tonnum.

„Við vorum rúmlega tvo sólarhringa að fá í bátinn og aflinn fékkst í einungis fjórum holum. Þegar við héldum í land breyttist þetta og nú er bara ekkert að hafa og skipin sem eru á miðunum eru að leita. Nú erum við að þrífa skipið og gera það fínt fyrir sjómannadagshelgi. Hjá okkur er allt komið í ró,“ segir Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni í frétt Síldarvinnslunnar.