miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Litlir kínverjar, ekki djúpsprengjur

28. nóvember 2013 kl. 12:35

Kolgrafafjörður (mynd af vef RÚV)

Landhelgisgæslan leiðréttir missögn ráðuneyta um fyrirhugaðar aðgerðir í Kolgrafafirði.

Landhelgisgæslan ætlar ekki að nota neinar djúpsprengjur til að reyna fæla síldina út úr Kolgrafafirði heldur svokallað Thunderflash. Það eru litlir kínverjar sem Landhelgisgæslan notar ef hún þarf til að mynda að kalla kafara upp úr sjónum. Trúnaðarmál er hvenær ráðist verður í þessar aðgerðir.

Fyrst var greint frá notkun djúpsprengja í tilkynningu frá umhverfis-og auðlindaráðuneytinu. Þar var sagt að smölun síldar með djúpsprengjum væri þekkt aðgerð sem notuð hefði verið með góðum árangri við nótaveiðar en væri nú víðast hvar bönnuð sem veiðiaðferð.

Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni sem stýrir aðgerðum í Kolgrafafirði, segir í samtali við fréttastofu RÚV að aldrei hafi staðið til að beita djúpsprengjum. Þær séu það öflugar að yrðu þær notaðar myndu sprengjurnar sennilega tæma fjörðinn. Þær eru með um 140 kíló af TNT sprengiefni - sem er helmingi sterkara en dínamít. 

Sigurður segir að Thunderflash eða Skruggublossi hafi verið notaðir í tilraunaskyni í fiskeldi og það er aðeins lítill hvellur sem heyrist neðansjávar. Engin verður var við þá á yfirborðinu. Hann segir það enn trúnaðarmál hvenær ráðist verði í þessar aðgerðir - síldin sé þannig að öll umferð getur sett aðgerðina úr skorðum.  

Hann segir að þeir fari mjög varlega og að þeir eigi fund með Hafró í dag.  Þá hafi þeir einnig ráðfært sig við skipstjóra á þeim bátum sem hafi verið að veiðum í Kolgrafafirði - þeir þekki hegðun síldarinnar hvað best. Sigurður segir að mögulega verði bara einn Thunderflash-kínverji notaður og svo bátar til að smala síldinni í burtu.