föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Litríkt eins og kóralrif

14. ágúst 2019 kl. 16:15

Plast er víða að finna í hafi. MYND/EPA

Plastmengun í Eyjahafi vekur óhug.

Í gríska Eyjahafinu er að finna heilu breiðurnar af plastúrgangi. Sjálfboðaliðar sem hafa unnið að því að hreinsa þetta upp segja sjónina vekja óhug.

Engu líkara sé en þarna séu heilu kóralrifin, litrík en sveiflast til með hafstraumnum.

„Þetta virkilega sló mig og ég held að þetta hafi slegið alla sem sáu,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Arabellu Ross, kafara sem tekur þátt í sjálfboðastarfi við að hreinsa plast úr hafinu við strendur grísku eyjunnar Andros.

Kafararnir tíndu þarna upp úr hafinu ógrynnin öll af litríkum plastpokum sem voru þar flæktir í hafsbotninum og sveifluðust til og frá innan um fiskana.

Hún sagði það sem mætti þeim í hafinu minna helst á karabíska hafið, „þar sem allstaðar er að finna kóralrif í alls konar litum. Þetta var nákvæmlega eins, nema í staðinn fyrir kórala voru þetta pokar.“

Það eru samtökin Aegian Rebreath sem standa fyrir þessu sjálfboðaliðastarfi, bæði við eyjuna Andros og víðar í Eyjahafinu. Þau voru stofnuð árið 2017 til þess að bregðast við ástandinu í Eyjahafi.

Reuters skýrir frá því að Grikkir láti frá sér 700 þúsund tonn af plastúrgangi ár hvert. Um það bil 11.500 tonn af því lendi í hafinu og nærri 70 prósent af því skili sér aftur að ströndum Grikklands og grísku eyjanna.