mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ: Byggðakvótar eru smáskammtalækningar

27. maí 2014 kl. 14:25

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Eðli kvótakerfisins er að leita hagræðingar og skila arði

Byggðakvótar eru smáskammtalækningar sem leysa ekki vanda smærri byggðalaga, segir framkvæmdastjóri LÍÚ. Hann segir að kvóti sem sé tekinn og settur í byggðapott sé alltaf tekinn frá einhverjum öðrum. Eðli kvótakerfisins sé að leita hagræðingar og skila arði. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra kallaði eftir samfélagslegri ábyrgð útgerðarmanna í gær eftir fund með íbúum á Djúpavogi vegna áforma Vísis um að hverfa frá bænum með fiskvinnslu sína. Hann gaf í skyn að gerðu þeir það ekki þyrfti að auka byggðakvóta til að styrkja byggðir.

„Hvernig ætlar atvinnugreinin, sjávarútvegurinn, útgerðin að spila með í þessu,“ sagði Sigurður Ingi í gær. „Ef þetta verður eingöngu á hendi ríkisins að þá þarf ríkið auðvitað að hafa úr einhverju að spila. Þá gæti verið að við þyrftum að taka aukinn hlut í hlut ríkisins.“

Aukinn byggðakvóti leysi engan vanda

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ segir að útvegsmenn séu sannarlega reiðubúnir til að ræða hvernig leysa megi vanda byggðanna. Aukinn byggðakvóti leysi þó engan vanda.

„Ég held að dæmin sanni nú kannski að svona smáskammtalækningar hafa ekki alltaf skilað því sem menn hafa ætlað,“ segir Kolbeinn. „Það þarf kannski að skoða þessi mál á dýpri hátt og nálgast þau öðruvísi, því að byggðalög sem eru algjörlega háð sjávarútvegi og fá einhverskonar minni háttar veiðiheimildir í þessu formi, halda áfram að vera viðkvæm. Svo er það hitt að þessir pottar verða ekki til úr ekki neinu. Það er þannig að þessir byggðapottar eru teknir af einhverjum öðrum.“

Kerfið leitar hagræðingar

Aðspurður um hvort þróunin hafi ekki verið sú að kvótinn hafi færst á færri hendur og safnast fyrir í ákveðnum byggðalögum, segir Kolbeinn að eðli kerfisins sé að einhverju leyti að leita að hagræðingu.

„Það var kannski meiningin með því í upphafi. Við erum jú að horfa á Ísland sem samfélag líka þegar við horfum á sjávarútveginn, Ísland allt. Við viljum að hann skili sem mestum arði,“ segir Kolbeinn ennfremur á RÚV.