föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ fagnar ákvörðun ráðherra um hvalveiðar

27. janúar 2009 kl. 17:46

Landssamband íslenskra útvegsmanna fagnar þeirri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni í sumar.

Þetta kemur fram á vef LÍÚ en þar kemur einnig fram að sambandið hefur ítrekað hvatt til þess undanfarin ár að hvalveiðar í atvinnuskyni verði hafnar á ný.

Þá kemur fram að Aðalfundur LÍÚ hafi á síðasta hausti samþykkt ályktun þar sem lögð var áhersla á að veiðum á hrefnu og langreyði í atvinnuskyni verði haldið áfram.

„Þar kom einnig fram að sjálfbærar veiðar í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar myndu ekki ganga um of á þessa stofna að mati vísindanefndar Alþjóða hvalveiðiráðsins. Ráðið sjálft hefur ennfremur úrskurðað að hvalveiðar Íslendinga séu fyllilega löglegar,“ segir á vef LÍÚ

„Íslendingum ber að gæta vel að rétti sínum til nýtingar hvalastofna við landið. Grundvallaratriði er að landsmönnum verði hvorki meinað að nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt, né að viðhalda jafnvægi milli tegunda. Hvalastofnar við Íslandsstrendur eru ekki í útrýmingarhættu heldur í stöðugum vexti og eru nú taldir nálægt upprunalegri stærð.“