sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherra um hrefnuveiðar

20. maí 2008 kl. 18:55

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fagna þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hefja skuli hrefnuveiðar. Sú ákvörðun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999, segir í yfirlýsingu frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

Þar segir ennfremur: ,,Ástand hvalastofna við Ísland er gott og er það staðfest af helstu vísindamönnum á sviði hvalarannsókna. Stærð hrefnustofnsins hefur verið talin nálægt sögulegu hámarki, en samkvæmt nýjustu talningu voru um 44.000 hrefnur á landgrunninu við Ísland. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til veiðar á allt að 400 hrefnum og er það mat stofnunarinnar að slíkur fjöldi samrýmist markmiðum um sjálfbæra nýtingu.

Ekki er annað hægt en að lýsa yfir undrun á þeirri afstöðu sem komið hefur fram af hálfu forystumanna Samfylkingarinnar í málinu um að meiri hagsmunum sé fórnað fyrir minni. Þar vega hagsmunir helsta útflutningsatvinnuvegar þjóðarinnar, sjávarútvegsins, lítið.

Hrefnur og aðrir hvalir sem halda til hér við land éta um sex milljónir tonna af fæðu á ári hverju, en af þessari fæðu eru rúmlega tvær milljónir tonna fiskur. Hrefnan er atkvæðamesti afræninginn bæði hvað varðar heildarmagn, sem er um tvær milljónir tonna og fiskát, en talið er að hrefnur éti um eina milljón tonna af fiski á ári, m.a umtalsvert magn af loðnu og þorski, en ýmislegt bendir til að hlutdeild eldri þorsks í fæðu hrefnunnar sé meiri en gert var ráð fyrir áður.

Ár hvert fer fram lífleg umræða um heildarveiði þar sem oft er tekist á um hvort veiða eigi nokkrum tugum þúsunda tonna meira eða minna af helstu nytjategundum. Því er ljóst að hagsmunir Íslendinga af því að veiða hvali eru miklir. Rétt þjóðarinnar til þess að nýta og ráðstafa eigin auðlindum getur svo reynst erfitt að verðleggja,” segir í yfirlýsingu LÍÚ.