fimmtudagur, 2. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ: Olíustyrkir ESB viðhalda háu olíuverði

Guðjón Einarsson
14. júlí 2008 kl. 17:30

,,Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni í dag er verð á olíutunnunni í 145 dollurum í framvirkum viðskiptum. Það segir okkur - miðað við gengi á dollara í dag og að í hverri tunnu séu 159 lítrar af olíu - að verð á hráolíu sé nú um 70,00 íkr/lítra til olíuhreinsunarstöðva,” segir á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna.

  Og áfram segir á vef LÍÚ:

,,Þessi gríðarlega hækkun á olíu hefur ekki verið útskýrð í fjölmiðlum svo vel sé. Bent hefur verið á aukna notkun í Kína og Indlandi, spákaupmennsku, þverrandi olíulindir og skort á olíuhreinsunarstöðvum svo nokkuð sé nefnt. Gríðarlegir olíustyrkir til fiskveiða í ESB löndunum hafa einnig sitt að segja til þess að viðhalda háu olíuverði.                     Atvinnulífið og heimilin um allan heim sem ekki njóta styrkja horfa í þennan gjaldalið og verða að spara olíu eins og frekast er kostur. Starfsemi sem þolir ekki svona hátt olíuverð leggst af nema aðrir orkugjafar geti komið í staðinn. Fátækasti hluti mannkynsins er eins og svo oft áður við slíkar aðstæður í mestri hættu. Í kjölfar hækkandi olíu hefur matarverð í heiminum farið hækkandi, sem gerir hundruðum milljóna manna erfitt um að brauðfæða sig.”

Verðbóla?

,,Mestar líkur eru á að þróun olíuverðsins sé enn ein verðbólan eins og fasteignabólan sem til skamms tíma reið yfir Vesturlönd og er helsta undirrót að vandræðum fjármálakerfisins í heiminum. Sé þetta haldbær skýring á háu olíuverði mun olía að sjálfsögðu lækka að nýju. Hversu hratt eða hvenær veit enginn á þessari stundu. Olíukrísan í byrjun níunda áratugar síðustu aldar stóð í um fimm ár en hæsti verðtoppurinn stóð skemur eða í þrjú ár,” segir á vef LÍÚ.