sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ um Greenpeace: Villandi málflutningur mun ekki stuðla að sjálfbærri nýtingu

28. apríl 2008 kl. 23:00

Greenpeace samtökin í Bandaríkjunum hafa sett saman lista með 22 fisktegundum og farið fram á að smásölukeðjur þar í landi hætti sölu þessara tegunda. Heildarinnkaup þessara smásöluaðila á fiski myndu dragast saman um tæpan helming ef farið yrði eftir þessum lista að mati forsvarsmanna National Fisheries Institute, sem eru stærstu hagsmunasamtök fyrirtækja í sjávarútvegi Bandaríkjunum. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ,segir á heimasíðu LÍÚ að þetta sé dæmigert fyrir vinnubrögð Greenpeace. Samtökin hafa verið að herja á smásölukeðjur í Evrópu og nú eigi að leika sama leik í Bandaríkjunum.      

 Á heimasíðu LÍÚ segir ennfremur um þetta mál:

,,Greenpeace samtökin segja að ofveiði, óæskilegar veiðiaðferðir og of hátt hlutfall meðafla séu helstu ástæður þess að viðkomandi fisktegundir séu á listanum, en meðal fisktegunda sem er að finna á honum eru þorskur úr Atlantshafi, karfi, skötuselur, hokinhali og alaskaufsi.  Einnig eru á listanum ræktaðar tegundir eins og lax og heitsjávarrækja.  Samtökin fara einnig fram á það við verslanir að þær taki upp innkaupastefnu er stuðlar að sjálfbærni og að vörur verði merktar þannig að neytendur viti hvar fiskurinn var veiddur og hvernig. 

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að í ljósi framgöngu Greenpeace í Evrópu þar sem samtökin  hafa víða herjað á smásölukeðjur m.a. á norðurlöndunum og í Bretlandi þurfi ekki að koma á óvart að nú skuli samtökin beina spjótum sínum að Bandarískum innkaupaaðilum.   “Í Bretlandi voru smásölukeðjurnar flokkaðar í góðar og slæmar, allt eftir því hversu vel þær voru tilbúnar til að fylgja fyrirmælum samtakanna.   Þeir sem ekki mættu kröfum þeirra urðu fyrir barðinu á ólöglegum aðgerðum af ýmsum toga.”

Friðrik segir að erfitt sé að átta sig á því hvað liggi að baki því að ákveðnar tegundir lendi inn á þesum listum samtakanna.  Rökin fyrir því að alaskaufsi er á listanum eru m.a. þau að kvóti hafi verið skorin niður um 28% á þessu fiskveiðiári. Þetta segir Greenpece að endurspegli hvað stofninn sé veikur.  En auðvitað er þetta fremur birtingarmynd þess að veiðunum er stýrt af ábyrgð og með langtímahagsmuni í huga. “Það er út í hött að samtök eins og Greenpeace sem segjast vera boðberar umhverfisverndar skuli níðast á þeim sem ganga fram af ábyrgð með þessum hætti.” Friðrik bendir einnig á að oft sé lítill og óljós greinarmunur  gerður á ólíkum stofnum sömu tegundar hjá Greenpeace. Atlantshafsþorskur er þannig inni á þessum listum, en stjórnun veiða úr stofninum hér við land er auðvitað önnur en stjórnun veiða í t.d. Norðursjó eða Eystrasalti. “Því miður eru þessi samtök alltaf meira gefin fyrir feitar fyrirsagnir og ómálefnalegar ofureinfaldanir en að fara með rétt mál.  Þau láta sér í léttu rúmi liggja þótt atvinnu fólks sem starfar í greininni sé stefnt í voða með framgöngu þeirra.”  Hann bætir við að ef Greenpeace fengi öllum sínum kröfum framgengt myndi það leiða til ómælds kostnaðar fyrir alla, neytendur, byrgja og innkaupaaðila. “Ekki væri það heldur í þágu umhverfisins ef allir hættu að veiða þær tegundir sem eru á listum Greenpeace og leggðust í veiðar á þeim tegundum sem eru ekki á listunum."

Í Bandaríkjunum hefur framkvæmdastjóri National Fisheries Institute (NFI), John Connelly, sent félagsmönnum NFI tölvupóst og varað við aðgerðum Greenpeace, en meðal félagsmanna eru fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi á ýmsum sviðum, m.a. smásöluaðilar, veitingastaðir sem sérhæfa sig í sölu fiskrétta og fyrirtæki í veiðum og vinnslu.  Í tölvupóstinum segir að ekki hafi verið stuðst við vísindaleg rök við val á tegundum á listann og mikillar ósamkvæmni gæti.  Hjá NFI hefur það verið reiknað út að ef farið væri að tillögum Greenpeace yrði að hætta sölu á um 47% af þeim fiski sem seldur er í bandarískum smásöluverslunum í dag. 

Í tölvupósti John Connelly er vakin athygli á því að á lista Greenpeace séu m.a. tegundir sem hafa fengið MSC vottun eins og alaskaufsi og hokinhali. Heitsjávarrækja er þar einnig, en þriðjungur  þeirrar heitsjávarrækju sem neytt er í Bandaríkjunum hefur fengið umhverfisvottun. 

Bent er einnig á að almennt hafi Greenpeace tilhneygingu til að einfalda um of flókin álitaefni tengd fiskveiðistjórnun.  Oft sé tegund á einum stað þar sem veiðum er vel stýrt og með sjálfbærum hætti eins og t.d. við Bandaríkin, Nýja Sjáland og Ísland sett undir sama hatt og sama tegund á öðrum stað þar sem yfirvöld hafa lakari yfirsýn og meiri lausatök eru á stjórnun veiða. 

  Á endanum er nálgun Greenpeace ekki til neins annars en að rugla neitandann að mati John Connelly.  Flestir þeir er starfa í greininni hafi unnið af heilindum að því að stuðla að sjálfbærri nýtingu enda hafi þeir af því mikla hagsmuni. Þeir þurfi því ekki á sérstöku samþykki Greenpeace að halda til að sinna áfram sölu sjávarafurða."