mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ljós við enda ganganna

Guðsteinn Bjarnason
7. nóvember 2019 kl. 08:00

Aðalsteinn Jónsson SU á loðnumiðunum. Mynd Ólafur Óskar Stefánsson

Engin loðnuveiði ráðlögð en ungloðnan lofar þó góðu þegar kemur fram á vertíðan 2021

Niðurstaða loðnuleiðangurs haustsins varð sú að Hafrannsóknastofnun ráðleggur enga loðnuveiði á næstu vertíð, ekki frekar en á þeirri síðustu. Birkir Bárðarson fiskifræðingur á Hafró segir þó nægilega mikið hafa fundist af ungloðnu sem mögulega gæti staðið undir veiði árið 2021.

„Almennt mældum við lítið af kynþroska loðnu núna og það voru vonbrigði. Við erum reyndar aðeins seinna á ferðinni en við höfum verið síðustu ár, en hún var hvergi í neinu verulegu magni. Hún var ekki eins norðarlega og hún hefur verið en það gæti líka verið tímafaktor, eitthvað gæti verið gengið til baka. En heilt yfir var mjög lítið af hrygningarloðnu,“ segir Birkir.

„En það jákvæða var það að við sáum talsvert af ókynþroska loðnu, aðallega eins árs ungloðnu. Góður partur af henni var reyndar býsna vestarlega á svæðinu sem við fórum um. Hún var á grunninu við Grænland, og það voru 82,6 milljarðar, sem er vel yfir viðmiði. Við miðum við 50 milljarða til að gefa ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár.“

Ekkert í hendi
Hann minnir þó á að margt getur gerst þangað til veiðar hefjast árið 2021.

„Þannig að það er ekkert í hendi, en þetta lofar góðu samt. Það er ljós við enda ganganna.“

Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að gögn um niðurstöður ungloðnumælinganna verði lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES). Ráðgjöf um upphafsaflamark vertíðarinnar 2020-2021 verður gefin út 29. nóvember næstkomandi.

Heildarmagn loðnu mældist 795 þúsund tonn og þar af var stærð veiðistofns vertíðarinnar 2019/2020 einungis metin um 186 þúsund tonn, en gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn með 95% líkum til hrygningar í mars 2020.

Þá kemur fram að Hafrannsóknastofnun muni að vanda mæla veiðistofn loðnu í janúar og febrúar 2020 og endurskoða ráðgjöfina í ljósi þeirra mælinga.

Kom ekki á óvart
Birkir segir leiðangursmenn telja að þeim hafi tekist að fara yfir allt það svæði sem grunur er um að loðnan geti haldið sig á.

„Hún var ekki eins norðarlega núna eins og undanfarin ár. Það getur verið út af því að hún sé aðeins seinna á ferðinni, og sú loðna sem gekk þarna norður eftir sé gengin aðeins til baka, en við ættum þá að hafa séð hana samt. Við vorum alveg að sjá loðnu á svæðinu við Scoresby en bara ekki í miklu magni.

Hann segir niðurstöðurnar í sjálfu sér ekki hafa komið mjög á óvart.

„Við sáum þennan árgang lítinn í haustmælingunni í fyrra, en það hefur nú svo sem gerst að eitthvað hafi komið upp úr lélegri ungloðnumælingu.“

Engin einhlít skýring liggur fyrir á því hvers vegna staðan er sú sem raun ber vitni.

„Við fórum þarna alveg norður undir 75. gráðu en við komum í ís við 73°30 N og fylgdum honum norður eftir, og þar var enga loðnu að sjá. Menn hafa oft velt því fyrir sér hvað er að gerast við ísinn, en að minnsta kosti núna sáum við hana ekki við ísröndina. Stundum hefur hún fundist þar.“