fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ljósátuveiðar Olympic Seafoods fá MSC vottun

21. ágúst 2015 kl. 09:00

Ljósáta

Heimilt er að veiða 620 þúsund tonn í heild af ljósátu í Suðurhöfum

Norska fyrirtækið Olympic Seafoods hefur fengið MSC vottun um að ljósátuveiðar þess í Suðurhöfum séu sjálfbærar, að því er fram kemur á vefnum fis.com. Þessar veiðar eru aðallega stundaðar til að fá hráefni til framleiðslu á Omega 3 fitusýrum.

Olympic Seafoods er annað fyrirtækið sem fær slíka vottun. Ljósátan er mikilvæg fæða í sjónum við Suðurheimskautið fyrir hvali, seli, mörgæsir og fleiri tegundir. Stjórn á veiðum á þessu svæði heyrir undir stofnun sem nefnist Convention for the Conservation of Antarctic Marine Living Resources (CCAMLR). Heimilað er að veiða 620 þúsund tonn af ljósátu á þessu svæði á ári sem er 1% af lífmassa ljósátu en hann er metinn um 62 milljónir tonna. Olympic Seafoods veiðir um 3% af þessum heimildum, eða um 15 þúsund tonn. Þess má geta að áætlað er að ýmsar afætur í sjónum éti um 20 milljónir tonna af ljósátu á ári sem er um 32% af ljósátustofninum.