þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ljósvarpan hlýtur styrk

24. júní 2015 kl. 15:53

Ljósvarpan

Úthlutað úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.

Ljósvarpan svokallaða var meðal þeirra verkefna sem fengu styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka í dag. 

Unnið hefur verið að þessu verkefni um margra ára skeið en markmiðið er að framleiða og markaðssetja nýja kynslóð veiðarfæra sem eru hönnuð til að stuðla að sjálfbærni togveiða. Leitað var leiða til að draga úr umhverfisáhrifum, þ.e. olíunotkun og snertingu veiðarfæris við botn og er ljósvarpan niðurstaða þeirrar vinnu. Ljósvarpan smalar saman fiskum með ljósi í stað víra, hlera og netveggja og getur svifið í fastri hæð yfir botni. Ljós hefur ekkert dráttarviðnám í vatni og auk þess smalar varpan fiskum upp af botni með ljósi án þess að snerta botn. Þannig er stuðlað að verndun búsvæða fiskistofna og dregið verulega úr notkun óendurnýjanlegra orkuauðlinda (olíu) og losun koltvísýrings, eins og segir í umsögn um verkefnið. 

Alls fengu sjö aðilar úthlutað samtals 10 milljóna styrk úr sjóðnum. 

Tvö önnur sjávarútvegstengd  verkefni voru þar á meðal, annars vegar framleiðsla á harðfiskflögum sem snakki og hins vegar kortlagning á tækifærum til vaxtar fyrir konur innan sjávarútvegsins með aukinni þátttöku þeirra innan greinarinnar. 

Sjá styrkveitinguna í heild á vef Íslandsbanka.