

Markaðir fyrir frysta loðnu eru mjög erfiðir en verð á mjöli og lýsi hátt. Það borgar sig því betur að bræða loðnuna en frysta hana á þessari vertíð, ef frá er talin stærsta loðnan.
Í Fiskifréttum í dag kemur fram að tvö fyrirtæki, HB Grandi á Vopnafirði og Skinney-Þinganes á Hornafirði, hafi tekið stærstu loðnuna til frystingar en brætt annað. Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur hingað til tekið alla loðnuna til mjöl- og lýsisvinnslu. Sama er að segja um Ísfélag Vestmannaeyja á Þórshöfn.
Tvö vinnsluskip sem hófu frystingu á loðnu um borð fyrr á vertíðinni eru hætt að frysta og veiða nú til bræðslu.
Ástæðan fyrir erfiðum mörkuðum fyrir frysta loðnu er einkum sú að mikið framboð var af þessari vöru á síðustu vertíð, ekki síst frá Noregi, og birgðir eru í markaðslöndunum en einnig í Noregi.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.