laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnan gengur hratt vestur með suðurströndinni

11. febrúar 2011 kl. 11:31

Loðna í lófa

Ágætisveiði þegar gefur, en óveðrið sem nú gengur yfir hamlar veiðum

Góð loðnuveiði var í fyrrakvöld og -nótt, grunnt út af Skarðsfjöruvita. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE, veiddist loðnan, sem nú gengur hratt vestur með suðurströndinni, allt upp á átta faðma dýpi.

Fjöldi skipa var á veiðisvæðinu en vegna óveðursins sem gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í nótt og í morgun má reikna með að einhver bið verði á því að veiðar hefjist að nýju, að því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.

Faxi kom á miðin út af Skarðsfjöruvitanum á miðvikudagskvöld og var fullfermi, eða um 1.500-1.550 tonn, komið í lestar í gærmorgun þegar veiðum var hætt og stefnan tekin á Akranes.

,,Það var ágætis veiði en annars hefur þetta verið nokkuð kaflaskipt upp á síðkastið. Þetta eru dreifðar lóðningar og töluverð ferð á loðnugöngunni. Við vorum vestast á veiðisvæðinu og mér vitanlega hefur ekki orðið vart við loðnu vestar en þar sem við vorum að veiðum. Loðnan þarna er stór og góð en ég hef þó ekki séð talningu um það hve mörg stykki eru í kílóinu,“ segir Albert Sveinsson á vef HB Granda en þegar rætt var við hann var Faxi á leið til Akraness. Þangað kom skipið seint í gærkvöldi.