þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðna fékkst í Grænlandssundi

26. nóvember 2012 kl. 14:29

Loðna

Fjögur skip eru á miðunum, innan og utan lögsögunnar.

 

Fjögur skip leituðu loðnu í nótt á Grænlandssundi, innan og utan fiskveiðilögsögunnar. Loðnan er stór og falleg en lítið hefur fundist enn sem komið er, að því er fram kom í hádegisfréttum RÚV.

Ingunn AK og Lundey, skip HB Granda, fundu loðnu innan lögsögunnar. Lundey fékk 100 tonn í þremur köstum en lenti í vandræðum með nótina og er nú á leið til hafnar á Ísafirði. Ingunn fékk hinsvegar 250 tonn í fimm köstum. Þar er Róbert Axel Axelsson fyrsti stýrimaður. Hann segir að leitað hafi verið í morgunsárið að lóðningum „Þetta er allt komið niður sem hefur sést. Við erum að reyna að staðsetja okkur fyrir seinnipartinn eða kvöldið svo vonandi sé hægt að gera eitthvað hérna þegar dimmir,“ sagði hann í viðtali við fréttastofu RÚV Í morgun.

Tvö skip leita Grænlandsmegin, Kristina EA, skip Samherja, og Guðmundur VE frá Ísfélaginu. Þau höfðu ekki kastað fyrir hádegi.