þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuhrognafrysting hefst síðar í ár en í fyrra

17. febrúar 2012 kl. 09:34

Japanskir eftirlitsmenn skoða loðnu í vinnslunni á Akranesi til að skera úr um hvort hrognin henti til frystingar fyrir Japansmarkaðinn. Mynd/HB Grandi: ESE.

Verður varla fyrr en dregur að mánaðamótum.

Í gær er rétt ár síðan loðnuhrognataka- og frysting hófst á vertíðinni í fyrra hjá HB Granda á Akranesi. Horfur eru á því að í ár geti hrognavinnsla hins vegar ekki hafist fyrr en í lok þessa mánaðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður.

,,Við byrjuðum hrognafrystingu mjög snemma í fyrra miðað við þroska hrognanna. Reyndar var hrognafyllingin þá orðin mun meiri en hún er nú. Loðnan gekk sömuleiðis síðar upp á grunnið út af Suð-Austurlandi að þessu sinni. Til marks um það má nefna að veiði í grunnnót hófst nú um 10 dögum síðar en í fyrra. Miðað við hrognafyllinguna og þroska hrognanna nú reiknum við því með að hrognafrysting hefjist ekki fyrr en nær dregur mánaðamótum. Það, eins og annað varðandi loðnuna, getur þó breyst og þess vegna í dag,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda í samtali á vef fyrirtækisins. Hann upplýsir að frysting á heilli loðnu hafi gengið vel á Vopnafirði síðustu dagana.

Loðnan, sem fyrst gekk upp á grunnið, er nú komin vestur fyrir Ingólfshöfða en þaðan er nokkurn veginn jafn langt til Akraness og Vopnafjarðar, eða um 200 sjómílur. Tæplega 7.000 tonnum af loðnu hefur verið landað á þessum stöðum frá því á mánudag og von er á Ingunni AK til Vopnafjarðar í nótt með um 1.200 tonna afla. Önnur skip eru ýmis í höfnum vegna löndunar eða á leiðinni á miðin.

Hráefnisgeymslur á Akranesi eru nánast fullar og eins er staðan hráefnisbirgða góð á Vopnafirði. Því var ákveðið að láta Víking AK sigla til Fuglafjarðar í Færeyjum með fullfermi, 1.300 tonn, og er verið að landa úr skipinu þar.