laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnukvótinn 173 þúsund tonn

22. janúar 2016 kl. 15:37

Loðna

Í hlut Íslands koma aðeins um 100 þúsund tonn.

Hafrannsóknastofnun birti rétt í þessu niðurstöður loðnumælinga sem fram hafa farið nú í janúarmánuði. Framan af truflaði slæmt tíðarfar mælingarnar en dagana 13. – 20. janúar var veður mjög gott til mælinga og á þeim tíma náði Árni Friðriksson mælingu með landgrunnsbrúninni frá Grænlandssundi austur að Bakkaflóadjúpi. Mat veiðistofns út frá þessari mælingu er um 675 þúsund tonn.

Síðan segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar: 

„Ný aflaregla, sem stjórnvöld ákváðu að taka upp vorið 2015, byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2015/2016 173 þúsund tonn að meðtöldum þeim afla sem búið var að veiða þegar mælingar fóru fram."

Íslendingar fá aðeins um 100 þúsund tonn í sinn hlut af loðnukvótanum því þeir þurfa að' deila leyfilegum aflaheimildum með Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum. 

Sjá nánar á vef Hafró.