fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuleit hafin

4. janúar 2016 kl. 12:41

Loðna

Fimm skip leita loðnu á Íslandsmiðum.

Fimm skip leita nú að loðnu á Íslandsmiðum. Vísbendingar frá því í haust benda til þess að loðnan sé frekar vestarlega. Vonir standa til að hægt verði að kortleggja útbreiðslusvæði hennar á næstu þremur dögum. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Auk rannsóknarskipa Hafrannsóknarstofnunar, Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar, taka Sigurður VE, Sighvatur Bjarnason VE og Jóna Eðvalds frá Hornafirði þátt í leitinni. Jóna Eðvalds kom í stað Aðalsteins Jónssonar sem skemmdist í óveðrinu á Austurlandi á milli jóla og nýárs. Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs hjá Hafrannsóknastofnun segir í viðtali við RÚV að búið sé að leggja út leitarlínur fyrir öll skipin.

„Við dekkum svæðið frá Austfjarðamiðum að Vestfjarðamiðum þannig að við vonumst til að á næstu þremur dögum eða svo náum við að kortleggja útbreiðslusvæði loðnunnar og í framhaldi af því munu rannsóknarskipin mæla magnið vonandi hratt og örugglega.“

Þorsteinn segir að miðað við upplýsingar úr loðnuleit frá því í nóvember og desember bendi ýmislegt til þess að loðnan haldi sig út af Vestfjörðum. Þó sé erfitt að segja með einhverri vissu til um bæði staðsetningu og magn fyrr en að leit lokinni.

„Við eigum von á því að hún sé frekar vestarlega en högum samt leitinni þannig að við leitum allt frá Austfjarðamiðum þó að við eigum kannski von á því að hún sé út af Norðurlandi og þar vestur af.“