mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuleit hefst væntanlega innan skamms

2. janúar 2014 kl. 15:27

Loðna

Árni Friðriksson heldur af stað til mælinga þegar veiðiskip hafa fundið eitthvað.

Loðnumæling mun hefjast fljótlega eftir að einhverjar fregnir hafa borist frá uppsjávarskipum sem væntanlega verður innan skamms, segir Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun í samtali við Fiskifréttir. 

Sveinn minnir á að búið sé að gefa út 160 þúsund tonna bráðabirgðakvóta í loðnu og að líklega muni einhver veiðiskip fara af stað fljótlega. „Við ætlum því að bíða og sjá hver staðan er á göngunni áður en rannsóknarskipið Árni Friðriksson heldur á miðin.“ 

Sveinn geri ráð fyrir að loðnan hegði sér á líkan hátt og undanfarin ár. „Gangan er nánast undantekningarlaust úti af Langanesi í byrjun janúar og við viljum helst mæla hana þar. Ef við missum gönguna of langt suður á bóginn eða suður fyrir 65. breiddargráðu er hætt við að hún  klofni og dreifi sér. Hluti hennar getur þá leitað langt austur í haf og annar hluti inn á grunnin við landið og erfitt á ná utan um hana.“

Karl Jóhann Birgisson útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar segir að ekki hafi verið ákveðið enn hvenær skip fyrirtækisins muni hefja loðnuveiðar. „Veðurspáin er leiðinleg fyrir næstu daga og við erum enn að gera skipin klár til veiða. Við höfum jafnvel í hyggju að byrja á síldveiðum og bíða aðeins með loðnuna.“