föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnulöndun með spúandi eldfjall við hliðina

24. janúar 2013 kl. 10:10

Ásberg RE. (Mynd af heimasíðu LÍÚ)

„Hvað er að þessum Eyjamönnum að brenna sinu núna"

 

„Hvað er að þessum Eyjamönnum að brenna sinu núna." Þetta voru fyrstu viðbrögð Friðriks heitins Bergmanns, skipverja um borð í Ásbergi RE 22, þegar hann sá bjarmann frá Heimaey aðfaranótt 23. janúar 1973. Þetta kemur fram í skemmtilegu viðtali við Björn Jónsson, starfsmann LÍÚ, á heimasíðu LÍÚ.

Björn Jónsson, sem er fyrrverandi skipstjóri á Ásbergi RE, rifjar upp í viðtalinu gosið í Vestmannaeyjum nú 40 árum síðar. Veðrið átti sinn þátt í því að skip Björns lagði ekki af stað á loðnumiðin fyrr en um hádegisbilið þann 22. janúar. „Það var bara leiðindaveður sem tafði okkur en gerði það að verkum að við vorum rétt við Eyjar þegar ósköpin dundu yfir," segir Björn. Ásberg RE fór til Eyja og lagðist að Friðarhafnarbryggju rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina þegar gosið hófst og tók strax þátt í björgunarstörfum og sigldi með fólk til Þorlákshafnar.

Eftir að hafa sett fólkið í land í Þorlákshöfn var aftur haldið af stað til loðnuveiða þar sem ekki var þörf á frekari aðstoð. „Um mánuði eftir að gosið hófst var það orðið allt öðruvísi en í upphafi. Ég man eftir því þegar við vorum á veiðum mjög nálægt Vestmannaeyjum að hafa þurft að breiða segl yfir þegar verið var að dæla loðnu um borð til að verja að gjall færi ekki með henni niður í lest, en þá stóð vindurinn yfir loðnuslóðina. En það var ógleymanlegt að landa loðnu síðar á loðnuvertíðinni í Vestmannaeyjum, með spúandi eldfjall við hliðina á sér. Það var tilkomumikið, ég neita því ekki," segir Björn.

Sjá nánar: http://www.liu.is/frettir/nr/1642/