mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuveiðar hafnar norður af Melrakkasléttu

10. janúar 2014 kl. 11:18

Börkur NK (Mynd: Þorhildur Eir Sigurgeirsdóttir)

Börkur NK fékk 250 tonn í fyrsta holi eftir að trollveiðar máttu hefjast á miðnætti.

Loðnuskipin hafa hafið loðnuveiðar  norður af Melrakkasléttu. Nokkur skip köstuðu nót í gær og fengu einhvern afla en trollveiðar máttu hefjast um miðnætti. Skipin hífðu trollin í morgun og fengu þokkalegan afla. Börkur NK fékk til dæmis 250 tonn í fyrsta holi.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir einnig að Birtingur NK sé hættur síldveiðum a.m.k. í bili en hann var við veiðar úti fyrir Suðausturlandi. Síldin þar hafði gengið upp á hraunið austan við Hrollaugseyjar og þar er ekki hægt að kasta. Birtingur tók loðnunótina í gær og heldur senn til loðnuveiða.