laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuvinnslan endurnýjar bolfiskvinnsluna

6. maí 2016 kl. 09:09

Frá undirritun samningsins milli Völku og Loðnuvinnslunnar. Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, fyrir miðri mynd.

Samningur um eina fullkomnustu bolfiskvinnslu í heimi, segja Valka og Loðnuvinnslan

Loðnuvinnslan hf. og Valka ehf. gengu á dögunum frá samningi um heildarkerfi fyrir bolfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirð. Kerfið sem um ræðir tekur við forsnyrtum flökum og sker þau í bita, flokkar í mismunandi afurðaleiðir, pakkar í kassa, leggur plast yfir, skammtar ís, merkir kassann og lokar honum, allt á sjálfvirkan hátt, að því er fram kemur í frétt frá Völku. 

Á meðal nýjunga sem Valka afhendir í þessu verkefni er tvöföld vatnsskurðarvél, sú öflugasta sem hefur verið hönnuð til þessa. Tæknin mun skila Loðnuvinnslunni aukinni skilvirkni, bættri nýtingu og möguleika á að mæta auknum kröfum markaðarins um beinlausar afurðir. Með þessu mun bolfiskhús Loðnuvinnslunnar klárlega verða eitt hið fullkomnasta í heiminum. 

Mikil aukning í framleiðslugetu og sveigjanleika

Nýja kerfið gerir Loðnuvinnslunni kleift að auka framleiðsluna til muna. „Við stefnum að því að auka framleiðsluna úr u.þ.b. 23 tonnum á dag í yfir 40 tonn. Með þessari fjárfestingu sjáum við fram á að geta gert það án þess að bæta við fólki en það hentar okkur vel því starfsfólkið er hluta ársins að vinna uppsjávarfisk,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar hf. „Kerfið gerir okkur líka kleift að vera í mjög fjölbreyttri framleiðslu og auðvelt er að vinna margar afurðategundir samtímis, sem er mikilvægt við núverandi markaðsaðstæður. Þá býður nýja línan uppá þann möguleika að keyra hvítfiskvinnsluna á mun færra starfsfólki en við erum að gera í dag og þá getum við unnið uppsjávar- og bolfisk á sama tíma,“ bætir Friðrik við. 

Stærsti samningur Völku

 Samningurinn við Loðnuvinnsluna er sá stærsti sem Valka hefur gert hingað til. „Við erum virkilega ánægð með að Loðnuvinnslan hafi valið að vinna með okkur í þessu metnaðarfulla verkefni sem gert var að vandlega athuguðu máli,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.