þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loftskeytamaður í 50 ár

28. desember 2017 kl. 12:00

Bergþór Atlason loftskeytamaður. MYND/GUGU

Voru gulls ígildi fyrir útgerðina á árum áður


Loftskeytamenn voru gulls ígildi fyrir útgerðina á árum áður. Þeir sáu um að samskiptin væru greið og góð og stunduðu jafnvel njósnir. Þeir hlustuðu á skeytasendingar þýskra og breskra togara sem voru við veiðar á Íslandsmiðum sem fóru fram á dulmáli, réðu dulmálið og þegar útlendingarnir voru í bullandi veiði voru íslensku togararnir mættir á svæðið snimmhendis. Einn af þessum vösku samskiptasnillingum er Bergþór Atlason sem starfaði við fagið í um 50 ár og lét nýlega af störfum hjá Landhelgisgæslunni eftir 11 ára viðveru þar.


gugu@fiskifrettir.is

Bergþór er Reykvíkingur í húð og hár en starfaði þó lengst af á Siglufirði og Vestmannaeyjum. Afi hans var bóndi í Skeiðarvogi og sem strákur vann hann öll almenn sveitastörf þar. Þá var sveitin ennþá innan borgarmarkanna.  1956 tók Reykjavíkurborg landið undir íbúðarhúsnæði Bergþóri til mikils ama sem undi sér hvergi betur en við sveitastörf. Næsta sumar var hann sendur í sveit vestur í Dalasýslu og næstu fjögur sumur í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu hjá vandalausum.  Á unglingsárunum ól hann með sér þann draum að verða útvarpsvirki. Á þessum árum var hægt að komast í Iðnskólann beint úr skyldunáminu en útvarpsvirkjun var eftirsótt nám og þurftu menn að komast að hjá meistara sem völdu eingöngu þá í læri sem höfðu lokið gagnfræðanámi. Bergþór lauk gagnfræðanámi þar sem talsverð áhersla var lögð á tungumál. Mál öxluðust þó þannig að Bergþór hóf aldrei nám í útvarpsvirkjun en lærði þess í stað að verða loftskeytamaður og lok námi vorið 1968.

Á Síldina

Nýútskrifaður loftskeytamaðurinn gerði sér litla von um vinnu í sínu fagi en rölti þó niður á Reykjavíkurhöfn. Þar var verið að gera Síldina klára á síldarvertíð til Jan Mayen. Klettur hf. var útgerðaraðili og Bergþór hafði unnið talsvert með föður sínum við að mála togara í eigu fyrirtækisins. Hann rölti sig upp á skrifstofu Kletts, hitti þar starfsmannastjórann og falaðist eftir vinnu. Hann sá öll tormerki á því vegna reynsluleysis Bergþórs.

„Í því gekk framhjá aðalreddarinn hjá Kletti sem sá um útgerð skipanna. Hann vildi vita hvaða erindi égt ætti upp á skrifstofu og ég sagðist vera að leita að vinnu sem loftskeytamaður. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina og réði mig á staðnum.“

Þarna komst Bergþór að sem loftskeytamaður fyrir hálfgerða tilviljun. Síldin var í þeim verkefnum að sækja síld til bátanna við Jan Mayen og færa þeim kost.

Tilkynningaskyldan

„Tungumálanámið í gagnfræðaskólanum kom sér vel þegar ég var á togurunum og við sigldum á Þýskaland. Þar töluðu fæstir ensku. Ég sigldi fjórtán sinnum á árunum 1969 til og með 1971. Fyrst á Síldinni. Síld var gamalt 3.000 tonna olíuskip og síldin fór bara í tankana. Haförninn frá Siglufirði var líka í síldarflutningunum á þessum árum. Þarna er Tilkynningaskyldan var að hefjast og við héldum utan um þau mál og gættum þess að allt væri í stakasta lagi hjá öllum síldveiðibátunum,“ segir Bergþór.

Hannes Hafstein, þáverandi formaður Slysavarnasambandsins, hafði barist ötullega fyrir tilurð Tilkynningaskyldunnar en það sem gerði útslagið var þegar Stígandi ÓF 25 frá Ólafsfirði sökk árið 1967 í Norður-Íshafi. Mannskapurinn komst í björgunarbáta og hafði hafst við í þeim í mikilli vosbúð hátt í viku áður en þeim var bjargað.

Bergþór var í þrjú og hálft ár til sjós á Síldinni, Hallveigu Fróðadóttur og Hafliða. Á Hafliða var hann í tvö og hálft ár og öðlaðist þar mikla reynslu. „Á gömlu síðutogurunum var ekki mikið af tækjum. Það var einn radar, eins fisksjá og tveir dýptarmælar. Vélskólinn var fyrst þá að byrja að útskrifa vélstjóra úr rafmagnsdeild. Það voru því engir vélstjórar með sérþekkingu í rafmagni. Ég var því á fullu að gera við í vélinni að setja upp nýjar ljósavélar og að aðstoða mikið í viðgerðum. Eftir árið var ég orðinn nokkuð góður í öllum viðgerðum.“

Til Vestmannaeyja

Í byrjun sjöunda áratugarins stóð hugur Bergþórs til þess að flytja til Reykjavíkur en þá opnaðist staða fyrir hann hjá Siglufjarðarradíó. Á þessum árum var það eins og að vinna í happdrætti að komast að á loftskeytatstöð. Togurum hafði fækkað um helming og þar með starfandi loftskeytamönnum til sjós. Nýsköpunartogararnir voru að hverfa úr flotanum og skuttogararnir bættust smám saman inn í flotann. Það dugði þó eingöngu til þess að til urðu um 40 störf fyrir loftskeytamenn. Bergþór greip það því höndum tveim að fá starf á Siglufjarðarradíó. Þar ílentist hann í sextán ár. Eftir því sem árin liðu fyrir norðan minnkuðu verkefnin hjá Siglufjarðarradíó en komin var upp vandræðastaða í Vestmannaeyjum þar sem einungis var einn starfandi loftskeytamaður. Um þetta leyti höfðu hlutirnir æxlast þannig að skortur var orðinn á loftskeytamönnum sem margir höfðu snúið sér að öðrum störfum vegna takmarkaðra atvinnumöguleika á árum áður.

Bergþór réði sig á loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum og ætlaði í upphafi að staldra þar við í eitt ár en þau urðu sautján þegar upp var staðið. Hann starfaði því samtals í 32 ár hjá Landsíma Íslands.

„Við afgreiddum allan flotann með símtöl og skeyti sem fóru í gegnum loftskeytastöð. Þá voru ekki símar um borð í skipum eins og nú er. Auk þess vorum við með allan ritsímann fyrir bæinn sem fólst í skeytasendingum bæði innan bæjar og til útlanda.“

Njósnað um Breta og Þjóðverja

Á þessum tæpu fimmtíu árum sem Bergþór hefur starfað sem loftskeytamaður hafa orðið miklar tækniframfarir. Þegar hann byrjaði hjá Siglufjarðarradíó var nýlega hætt að nota mors. Hann segir að morsið hafi samt bjargað sér margoft þegar hann átti í samskiptum við rússneska sjómenn. Rússarnir sendu morsskeyti til Gufunesradíó og þaðan til Murmansk í Rússlandi þar sem þau voru þýdd yfir á ensku.

„Við sendum líka mikið dulmál þegar ég var til sjós því við vorum mikið innan um þýska breska togara áður en landhelgin var færð út. Það voru allir að njósna hver um annan. Við hlustuðum á dulmálið frá þýsku og bresku togurunum og fylgdumst síðan grannt með þeim með sjónaukum og sáum hve mikið þeir voru að hífa. Þannig gátum við lært dulmálið sem þeir sendu til sinna útgerða. Við sigldum svo beint til þeirra ef við vissum að þeir væru í fiski. Þeir voru líka fylgjast með okkur og lærðu okkar dulmál. Við skiptum alltaf um dulmál einu sinni á ári þegar okkur fannst Þjóðverjarnir vera búnir að læra of mikið,“ segir Bergþór.

1972 var Bergþór farinn að vinna í Siglufjarðarradíó þegar Þorskastríðið hófst. Oft var hann kvíðinn þegar hann hlustaði á samskiptin úti á sjó og bjóst einatt við stórslysum. Hlutverk Bergþórs var engu að síður að afgreiða símtöl fyrir breska landhelgisbrjóta þótt formlega ættu löndin í „stríði“.

„Í fyrra Þorskastríðinu 1972 vildum við lofskeytamenn sýna samhug okkar með þjóðinni og loka fyrir loftskeytaþjónustu við Bretana. Póst- og símamálastofnun þvertók hins vegar fyrir það og okkur gert að fara eftir alþjóðasamningum. En svo þegar landhelgin var færð út í 200 mílur 1975 blöskraði okkur algjörlega framferði Breta sem voru farnir að keyra á varðskipin. Þá tókum við okkur saman Siglufjarðarradíó, Nesradíó, Hafnarfjarðarradíó og Ísafjarðarradíó og lokuðum fyrir öll samskipti nema þau mikilvægustu, eins og samskipti við lækna og viðgerðaraðila. Við höfðum auðvitað enga heimild til þess að gera þetta en það vildi svo vel til að póst- og símamálastjóri var í útlöndum þannig að við gátum haldið þessu lokuðu í heila viku. Það varð svo allt vitlaust þegar hann kom heim og við urðum að opna á ný. Loftskeytamenn á breska flotanum skildu okkur alveg.“

Það hefur ýmislegt borið til á hálfrar aldar starfsævi Bergþórs en hann kveðst frekar muna eftir atburðum sem fóru vel en hinum sem enduðu verr. Hann rifjar upp þegar báturinn Valþór fórst við innsiglinguna í Grímsey 1981. Tveir menn voru um borð og björguðust þeir báðir en engu mátti muna. Báturinn keyrði upp á sker og fór botninn úr honum. Aðrir bátar voru komnir í land enda foráttuveður. Bergþór hringdi látlaust þar til einn bátur í höfninni heyrði neyðarkallið. Bátnum var bakkað á fullu og keyrt inn í sortann. Einungis stefnið á bátnum stóð upp úr og mennirnir héngu á því. Náðust þeir báðir um borð en báturinn var horfinn skömmu síðar í djúpið.

Björgun við Bjarnarey

„Ég minnist þess líka 1997 að það voru fimm á gúmmítuðru að koma úr veiði í Bjarnarey í Vestmannaeyjum þegar alda frá berginu fyllti bátinn sem sökk undan þeim. Þeir voru ekki í björgunarbeltum. Einn mannanna hékk á tuðrunni og tilfallandi hafði hann farsíma á sér. Hann náði að hringja og svo heppilega vildi til að ég sat við símann og náði að svara. „Erum að sökkva við Bjarnarey.“ Svo heyrðist ekki meira frá honum. Svo vel vildi til að kunningi minn einn sem gerði út skemmtibát var í nágrenni Bjarnareyjar. Þarna var líka björgunarbáturinn Þór sem hafði verið að ferja menn úr úteyjunum. Báðir þessir bátar fara strax af stað. Hefðu þeir ekki verið svo nálægt Bjarnarey hefði þetta aldrei farið svona vel. Þeir ná öllum úr sjónum og einn var kominn undir bergið og flaut þar á vatnsbrúsa hálf meðvitundarlaus.“

Bergþór er þess fullviss að Tilkynningaskyldan hafi í gegnum tíðina bjargað mörgum mannslífum. Hann minnist þess þegar hann bjó og starfaði í Vestmannaeyjum hafi togarar verið við veiðar út við Surtsey. Spáð hafði verið rólegheita veðri. Skyndilega birtast dökkir bakkar í suðri og hreyfing kemst á skipin.

„Við byrjuðum strax að kalla í litlu bátana og náðu strax mörgum Vestmanneyingum í land. En bátar frá Þorlákshöfn og Vík voru fjær og höfðu ekki tíma til að bjarga sér í land áður en veðrið skall á. Við fengum stóru bátana frá Þorlákshöfn til að fara til móts við litlu bátana og vera þeim til halds og trausts. Á svæðinu milli Vestmannaeyja og Grindavíkur voru tveir  litlir bátar og annar þeirra sökk. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfninni. Annar bátur til viðbótar fórst en svo vildi til að varðskip var á svipuðum slóðum og náði að bjarga þeim manni. Í það heila var þetta fjöldinn allur af bátum á sjó en þetta bjargaðist alveg ótrúlega miðað við veðurofsann sem rauk upp. Þarna hefði getað orðið stórslys. En í þessu sama veðri fórst bátur í innsiglingunni að Akraneshöfn.“

Pottur brotinn

Hann segir mikla vöktun með skipa- og bátaflotanum en þó sé pottur brotinn þar sem fjöldi skemmtibáta er án sjálfvirks tilkynningarbúnaðs. Þeir geti verið hættulegir sjálfum sér og öðrum og ætti að skylda þá til að vera með slíkan búnað. Oft séu óvanir menn á þessum bátum sem sigla á allt að 25 til 30 mílna hraða og geta valdið öðrum stórskaða sem sjá þá ekki. Samkvæmt reglugerð verða allir atvinnubátar að vera með sjálfvirkan tilkynningarbúnað.

„Í karabíska hafinu hvarf ákveðinn fjöldi af skútum og skemmtibátum á hverju ári. Sumir töldu að þetta væri vegna árása sjóræningja. En eftir að sjálfvirkur tilkynningarbúnaður var settur í þessa báta snarfækkaði þessu tilvikum og að tíu árum liðnum heyrði það til undantekning að bátar hyrfu. Það kom í ljós að þessir bátar hafa verið keyrðir niður meðan allir voru í fasta svefni af stórum flutninga- eða farþegaskipum sem sjá ekki þessa litlu báta.“

Bergþór hefur síðustu ellefu ár starfað hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Þar er öryggisþátturinn fyrirferðamestur hvað varðar skipaflota landsmanna en jafnframt fiskveiðieftirlit hluti af starfseminni. Í byrjun október lét hann af störfum vegna aldurs en fagnar því á sinn hátt. Hann hefur alla tíð unnin vaktavinnu, eða alveg frá árinu 1972. Hann segir að vaktavinnan hafi tekið sífellt meiri toll eftir því sem árin færðust yfir. Bergþór á fjögur uppkomin börn og áttunda barnabarnið er á leiðinni. Hann sér fyrir sér að verja miklum tíma með þeim.