þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lokastofnmat nálægt 250.000 tonnum

Guðsteinn Bjarnason
4. maí 2020 kl. 11:00

Birkir Bárðarson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Mynd/Smári Geirsson

Smávaxna loðnan við Færeyjar vekur athygli.

Loðnusérfræðingar Hafrannsóknastofnunar eru að leggja lokahönd á niðurstöður úr loðnuleiðöngrum vetrarins. Birkir Bárðarson, sem var leiðangursstjóri, segir fátt nýtt koma þar fram annað en áður hefur verið birt í fréttatilkynningum.

„Heildarstofnmatið er einhvers staðar nálægt þeim 250 þúsund tonnum sem við höfðum áður áætlað sýnist mér, eins og þetta lítur út núna. Við fórum í þennan leiðangur á Kap í eftirfylgni og hann sýndi okkur að það var loðna í hrygningu fyrir sunnan og vestan land og líka fyrir norðan, en við vorum ekki að sjá neitt magn sem máli skiptir í stóru myndinni. Það er samt nokkuð ljóst að eitthvað er að breytast.“

Ein helsta breytingin er hrygningin fyrir norðan land, sem er óvenjulegt, og það hefur vakið spurningar um hvert sú loðna fer í framhaldinu.

„Hugsanlegt er að straumar fyrir norðan land beri a.m.k. hluta seiðanna austur á bóginn en yfir Íslands-Færeyjahrygg mætir Austur-Íslandsstraumur úr norðri Norður-Atlantshafsstraumnum og gæti þar verið rekleið til suðausturs í átt að Færeyjum,“ segir Birkir, en nýverið hafa einmitt borist fréttir af því að smávaxin loðna hafi fundist við Færeyjar.

Hann segir það það óvenjulegt að svona smá loðna sé orðin kynþroska og það geti bent til þessa að þarna sé hægvaxnari loðna á ferðinni.

„Færeyingarnir segja það nýmæli að þeir verði varir við loðnu þarna og eru þessar fréttir mjög áhugaverðar fyrir okkur,“ segir hann.

„Ég hef ekki séð afgerandi upplýsingar um magn en við munum fá send sýni frá þeim sem við getum borið saman við Íslensku loðnuna t.d. m.t.t. erfðafræði.“