þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuveiðar í Barentshafi geta leitt til lækkunar afurðaverðs

16. október 2008 kl. 13:25

Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES) hefur gefið það út að óhætt sé að veiða 390 þúsund tonn af loðnu í Barentshafi á árinu 2009.

Norskir útvegsmenn fagna tillögum um að veiðar á loðnu verði hafnar á ný í Barentshafi en íslenskir markaðsmenn sjá fram á að verð á loðnuafurðum lækki ef Norðmenn auka framboðið, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttir.

Talsmaður samtaka norskra útvegsmanna segir að þeir reikni með því að væntanlegum kvóta verði skipt á milli Norðmanna og Rússa þannig að Norðmenn fái 60% en Rússar 40%.

Ef það gengur eftir fá Norðmenn hugsanlega 234 þúsund tonna loðnukvóta á næsta ári.

,,Það ætti að vera nægilegt til að þjóna stækkandi markaði fyrir loðnu til manneldis í Austur-Evrópu og til að hasla okkur völl aftur á Japansmarkaði,“ er haft eftir talsmanni samtaka norskra útvegsmanna á heimasíðu þeirra en hann hefur reiknað út að 200 þúsund tonn af væntanlegum loðnukvóta Norðmanna gætu farið til manneldisvinnslu.

 ,,Allir geta sagt sér það að ef framboð af frystum loðnuafurðum eykst mun það hafa þau áhrif að verð lækkar. Ef Norðmenn veiða stærri loðnu en við, sem er líklegt, má ætla að loðna frá okkur verði ekki eins eftirsótt og áður. Ég vil þó ekki vera með neinar dómsdagsspár. Menn taka bara stöðuna þegar þar að kemur. Flestir íslenskir framleiðendur hafa val um það hvort þeir frysti loðnuna eða bræði hana og eflaust munu þeir standa frammi fyrir þeim valkosti í vetur,“ sagði Teitur Gylfason hjá Iceland Seafood í samtali við Fiskifréttir.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.