mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Losna ekki við landhelgisbrjót

28. janúar 2014 kl. 09:42

Ros hefur verið þaulsetinn í Færeyjum (Mynd af vef færeyska útvarpsins).

Færeyingar hafa setið uppi með rússneskan togara í fimm ár með tilheyrandi kostnaði.

Það getur verið þrautinni þyngri að losna við erlenda landhelgisbrjóta eftir að þeir hafa verið færðir til hafnar, ef eigendurnir kæra sig ekki um að leysa þá út. Þetta hafa Færeyingar mátt reyna síðustu árin.

Rússneski togarinn Ros sem færður var til hafnar í júlí 2008 fyrir ólöglegar veiðar í færeyskri lögsögu, liggur enn við bryggju í Kollafirði. Í frétt á vef færeyska útvarpsins segir að útgerð Ros sé farin á hausinn. Reynt hafi verið að ná sambandi við rússneska bankann sem veð eigi í skipinu og eins við skiptastjóra búsins en það hafi ekki leitt til neins. Því verði færeyska ákæruvaldið, sem ber ábyrgð á togaranum, að leita annarra leiða.

Í fréttinni kemur fram að þegar málið var til umfjöllunar árið 2010 hafi verið skýrt frá því að það kostaði jafnvirði um 200 þúsunda íslenskra króna á mánuði að láta skipið liggja við bryggju í Kollafirði. Landhelgisbrjóturinn er færeyskum skattborgurum því orðinn nokkuð dýr og brýnt að losna við hann af höndum sér.