miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Losna við erfiðu og einhæfu störfin

Guðsteinn Bjarnason
22. ágúst 2020 kl. 08:00

Tækin stillt áður en vinnsla hófst í nýja tæknihúsinu á Dalvík. MYND/GB

Starfsfólkið í nýju landvinnslunni á Dalvík að tileinka sér nýja tækni og aðlagast húsinu smám saman.

„Það gekk nú bara mun betur en ég þorði að vona,“ segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja á Dalvík, um starfið fyrstu dagana. „Það er allt að virka eins og við ætluðum, öll tæki og flæðin. Nú er bara fólkið að læra á þetta og við erum að stilla. Við höfðum alveg gert ráð fyrir þvi að vera í kennslufasa næstu vikurnar.“

Í húsinu eru vinnslulínur frá Völku, flökunarvélar frá Vélfagi, hausarar frá Baader Ísland, lausfrystar frá Frost, stöflunarróbótar og róbót sem losar kör frá Samey. Að auki er búnaður frá Skaganum 3X, Marel, Raftákn, Slippnum og fleiri íslenskum fyrirtækjum.

Í landvinnslunni á Dalvík hafa starfað rúmlega 100 manns og Gestur segir að ekki standi til að segja neinum upp vinnunni, þótt sjálfvirkni takið að stórum hluta við þar sem mannshöndin hefur þurft að sjá um hlutina hingað til.

„Við reiknum með að hægt og rólega munum við aðlaga starfsfólk að nýju húsi, en eigum eftir að sjá hvernig þetta virkar. Allir sem voru í vinnu, þeir halda vinnunni.“

Tæknin muni fyrst og fremst útrýma einhæfum og erfiðum störfum, en önnur verkefni komi í staðinn.

„Við erum að fjárfesta á mörgum stöðum til að útrýma þessum einhæfu röðunarstörfum og þessum erfiðu störfum við að stafla kössum upp í tveggja metra hæð. Það er stóri munurinn gagnvart starfsfólkinu, fyrir utan aðstöðuna auðvitað og hljóð og ljós og hita og allt það.“

Hann nefnir sem dæmi áröðun á lausfrysta.

„Það eru tíu til tólf manns búin að vera í því tíu tíma á dag í 20 ár að raða bitum á lausfrysta sem við erum að gera sjálfvirkt hérna. Þannig að þetta verða meiri eftirlitsstörf.“

Hann segir ekki þurfa að gera neinar kröfur um meiri þekkingu meðal starfsfólksins.

„Hluti af þessu er samt ný þekking auðvitað, að stýra þessari tækni og öllum þessum vélum. En við eigum alveg frábært fólk sem er fljótt að tileinka sér nýja hluti. Við þurfum ekki að ráða tíu hámenntaða verkfræðinga. En fólk þarf að tileinka sér nýja tækni, þeir sem eru að stýra vélunum.“

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir það skipta miklu máli fyrir Dalvíkurbyggð að Samherji hafi ákveðið að byggja upp landvinnslu sína þar.

„Það er margt sem spilar þar inn í. Þetta tryggir auðvitað atvinnu fyrir fjölda fólks og þar að auki er mikið af afleiddri starfsemi víða um sveitarfélagið. Svo er ótrúlega gaman þessi þátttaka okkar litla sveitarfélags í tækniþróun í fiskvinnslu í heiminum. Fólk sem er búið að vinna hérna árum saman í landvinnslunni hjá Samherja hérna á Dalvík er að taka þátt í að þróa nýjustu tækni á heimsvísu og fá tækifæri til að vinna við nýjustu tækni. Þetta er bara mjög spennandi fyrir byggðarlagið í heild.“