sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LS vill frjálsar ýsuveiðar á línu til áramóta

1. október 2009 kl. 11:47

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur farið fram á það við sjávarútvegsráðherra að línuveiðar á ýsu verði gefnar frjálsar til næstu áramóta í ljósi þeirra vandræða sem skapast hafa vegna skorts á ýsukvóta á leigumarkaði.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS segir í grein í Fiskifréttum í dag að krókaaflamarksbátar séu mjög háðir kvótaleigu og bendir á að þeir hafi leigt 4.350 tonn af ýsu úr aflamarkskerfinu á nýliðnu fiskveiðiári.

,,Það er mikið áhyggjuefni að engu er líkara en búið sé að loka á allar færslur frá stórútgerðinni til krókaaflamarksbáta. Sjávarútvegsráðherra hefur verið bent á að afleiðingar þessa gætu þýtt minni værðmæti á hvert veitt ýsukíló, uppsagnir beitningafólks og sjómanna, að verðmætir markaðir erlendis tapist og síðast en ekki síst að margir bátar muni lenda í erfiðleikum með að fullnýta þorskkvóta sinn sökum meðafla í ýsu,” segir Örn.

Örn áætlar að ef ýsuveiðar á línu, bæði í aflamarks- og krókaaflamarkskerfinu, verði gefnar frjálsar til áramóta myndu veiðarnar á þessu tímabili nema 8-9 þús. tonnum.

Sjá nánar grein í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.