þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lúsaætur á disk neytenda

9. febrúar 2016 kl. 13:43

Hrognkelsaseiði.

Norðmenn leita að mörkuðum fyrir grásleppu eftir að hún lýkur hlutverki sínu sem lúsaæta

Norska matvælarannsóknastofnunin Nofima vinnur nú að því í samstarfi við laxeldisfyrirtæki að rannsaka betur og finna markaði fyrir lúsaæturnar í eldinu. Verkefnið hefur fengið nafnið „Lúsaætur á disk neytenda“.

Laxeldisfyrirtæki láta í vaxandi mæli klekja út ala fyrir sig grásleppur til að hreinsa lús af laxinum. Með því móti má draga úr eða koma í veg fyrir notkun á lúsalyfi. Grásleppurnar eru settar í kvíarnar þegar þær eru 20 grömm að þyngd og þær taka strax til við að hreinsa laxinn. Þegar þær hafa náð hálfs kílóa þyngd er hlutverki þeirra sem lúsaætu venjulega lokið.

Nú sjá eldisfyrirtækin fram á að vandmál kunni að skapast við að koma grásleppunum í lóg. Fram til þessa hafa grásleppurnar verið unnar í dýrafóður en nú leitast Nofima við að finna fínni markaði fyrir þau. Á það er bent að laxeldið sé búið að afskrifa kostnað við framleiðslu á grásleppunum og því sé það fundið fé ef hægt væri að finna verðmæta markaði fyrir grásleppuna. Norðmönnum líður líka betur með það að grásleppan fari til manneldis frekar en í skepnufóður.

Norðmenn ætla að leita fyrir sér í Asíu og fylgja þar fordæmi Íslendinga sem hafa unnið markaði fyrir grásleppuhvelju í Kína. Í framtíðinni er búist við því að Norðmenn þurfi að selja um 100 þúsund tonn af grásleppum sem framleiddar hafa verið sem lúsaætur. Þetta er gríðarlegt magn í samanburði við það að Íslendingar veiða um  um 4 þúsund til 7 þúsund tonn á ári af grásleppu.