sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lýsi gæti dregið úr þunglyndi hjá strákum

23. ágúst 2010 kl. 15:00

Með því að borða meira af feitum fiski, svo sem sardínum og laxi að ekki sé talað um lýsi, geta strákar á táningsaldri dregið úr hættunni að þjást af depurð og þunglyndi, að því er fram kemur í nýlegum rannsóknum í Japan. Feiti fiskurinn virðist þó ekki hafa sömu áhrif á táningsstúlkur.

Ómega-3 fitusýrur, sem aðallega er að finna í feitum fiski, eru næringarefni sem talin eru hafa mikla virkni á heilastarfsemina. Vísindamenn hafa kannað áhrif ómega-3 fitusýra á andlega líðan. Ekki hefur tekist að sýna fram á svo óyggjandi sé að lýsi létti lundina hjá fullorðnu fólki.

Nýlegri rannsókn var hins vegar beint sérstaklega að ungu fólki. Könnuð voru tengsl mataræðis og þunglyndis hjá um 6.500 japönskum ungmennum á aldrinum 12-15 ára. Um 23% strákanna og 31% stúlknanna reyndust þjást af einhverjum einkennum þunglyndis. Rannsóknin leiddi í ljós að marktækur munur var á því að strákar, sem borðuðu mest af fiski, þjáðust minnst af þunglyndi. Fiskátið virtist þó ekki hafa sambærileg áhrif á ungar stúlkur. Hver svo sem skýringin á því kann að vera. 

  Heimild: www.vancouversun.com