laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lýsir yfir ánægju með ákvörðun ráðherra

10. febrúar 2013 kl. 19:53

Loðna pakkað á Vopnafirði (Ljósmynd: HB Grandi/ Jón Sigurðarson)

Auking loðnukvótans þýðir að aflaheimildir skipa HB Granda aukast úr um 37 þúsund tonnum í um 58 þúsund tonn eða ríflega 50%

,,Ég er mjög ánægður með að atvinnuvegaráðherra og Hafrannsóknarstofnun hafi komið til móts við okkur og gefið út viðbótarkvóta fyrir loðnu, byggðan á bráðabirgðaútreikingum á stærð veiðistofnsins. Biðin eftir endanlegum útreikningum hefði stöðvað veiðar og vinnslu og þetta voru því ánægjuleg tíðindi.“


Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í frétt á heimasíðu félagsins, í tilefni af því að fyrr í vikunni var ákveðið að auka 150 þúsund tonnum við áður útgefinn bráðabirgðakvóta á loðnu á yfirstandandi vertíð. Vilhjálmur segir að ef þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin nú hefðu útgerðarfyrirtækin orðið að draga verulega úr veiðunum eða stöðva þær alveg til þess að tefla ekki veiðum á hrognatökutímanum, þegar loðnan er verðmætust, í tvísýnu.


Auking loðnukvótans nú þýðir að aflaheimildir skipa HB Granda á vertíðinni aukast úr um 37 þúsund tonnum í um 58 þúsund tonn eða um ríflega 50%.  Af þessu 58 þúsund tonna aflamarki félagsins eru nú um 27 þúsund tonn óveidd.


,,Skip félagsins veiddu rúmlega 58 þúsund tonn af loðnu frá 8. febrúar í fyrra og til loka vertíðarinnar þannig að staðan nú er vissulega þrengri en þá. Samkvæmt fréttum má hins vegar búast við nokkurri aukningu til viðbótar eftir að endanlegum útreikningum lýkur. Það byggir hvort tveggja á þeirri varúð sem upphaflega bráðabirgðarúthlutun fól í sér og eins því að áður en nýafstöðnum leiðangri lauk varð vart við eitthvað meira magn af loðnu en viðbótarráðgjöfin byggði á,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson ennfremur á heimasíðu HB Granda.