þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílafli íslenskra skipa kominn í 121 þúsund tonn

12. október 2010 kl. 13:49

Það sem af er vertíðar hafa íslensk skip landað rétt rúmlega 121 þúsund tonni af makríl. Þar af hafa tæplega 119.500 tonn verið veidd innan íslensku lögsögunnar og um 1.700 tonn í færeysku lögsögunni og úthafinu, að því er fram kemur í frétt á vef Fiskistofu.

Makrílheimildum ársins, sem eru 130 þúsund tonn, var ráðstafað í þrjá potta. Stærsti potturinn var upphaflega 112 þúsund tonn. Honum var úthlutað samkvæmt veiðireynslu til skipa sem stunduðu makrílveiðar á þremur síðustu vertíðum. Með reglugerðarbreytingu fyrr í vikunni var þessi pottur stækkaður upp í 115.600 tonn. Skip sem veiða af þessum heimildum hafa nú landað tæplega 104 þúsund tonnum.

Næstur er svonefndur 15 þúsund tonna pottur en þar fengu þau skip leyfi sem sérstaklega sóttu um og féllu ekki undir skilyrði stærsta pottsins. Skip sem veiða í þessu potti hafa nú landað rúmlega 16.300 tonnum. Unnt er að flytja heimildir úr 112 þúsund tonna pottinum yfir í 15 þúsund tonna pottinn sem skýrir veiðar þar umfram upphaflega úthlutun.

Að lokum er 3 þúsund tonna pottur og var hann ætlaður skipum sem stunda veiðar á línu, handfæri eða í gildru. Þar var landað rúmlega 179,5 tonnum. Leyfi til veiða úr þessum potti voru felld úr gildi 10. september síðastliðinn. Það sem ónýtt var af aflaheimild þessa potts var ráðstafað til skipa í 112 þúsund tonna pottinum.

Önnur skip sem landað hafa makríl, þ.e. skip sem ekki hafa sérstakt leyfi til makrílveiða – t.d. strandveiðibátar, hafa landað um 7,6 tonnum.