laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríll: Stórauknar heimildir til handfærabáta

22. apríl 2014 kl. 14:35

Makrílveiðar á handfæri. (Mynd: Vilmundur Hansen).

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð um makrílveiðar 2014 og heildarkvótinn er 148 þúsund tonn

Handfærabátar fá stóraukinn makrílkvóta í ár bæði í magni og sem hlutfall af heild samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Upphafsúthlutun til handfærabáta var 3.200 tonn í fyrra en er 6 þúsund tonn í ár.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðhera hefur gefið út reglugerð um makrílveiðar árið 2014 og þar er kveðið á um að heildarafli makríls fyrir verði 147.721 tonni eða um 16,6% af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) sem er 889.886 tonn. Þetta samrýmist þeirri kröfu sem Ísland hafði uppi í samningaviðræðum um skiptinu makrílkvótans, segir í frétt frá ráðherra.

Í nýgerðum makrílsamningi Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja ætla þessar þjóðir sér heildarafla í ár langt umfram heildarveiðiráðgjöf ICES. Miðað við 1.240 þúsund tonna heildarveiði nemur 148 þúsund tonna afli Íslands 11,9% af heildarafla samkvæmt samningnum.

Leyfilegum heildarafla er skipt á milli skipaflokka þannig að handfærabátar fá 6.000 tonn, ísfiskskip 7.917 tonn, frystiskip 30.682 tonn og uppsjávarskip með aflareynslu fá 103.121 tonn. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag veiða verði sambærilegt og á síðasta ári.

Hlutfall skipa í heildarafla er svipað og á síðasta ári nema hvað hlutur smábáta er aukinn eins og áður segir. Hlutdeild þeirra í upphafsúthlutun í fyrra var 2,6% en er um 4,1% nú. Þess má þó geta að eftir að handfærabátar höfðu veitt aflaheimildir sínar í fyrra voru veiðar þeirra gefnar frjálsar um tíma. Heildarflinn á krókana varð því 4.680 tonn í stað 3.200 tonna upphafsúthlutunar.  

Sjá einnig umfjöllun Landssambands smábátaeigenda um makrílkvótann.