þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríll veiðist suður af landinu

22. júní 2015 kl. 14:24

Huginn VE (Mynd: Jón Páll Ásgeirsson).

Sjávarhitinn 9,5 gráður 40 sjómílur suður af Vík

Fimm skip hafa verið við makrílveiðar um 40 sjómílur suður af Vík í Mýrdal og þegar Fiskifréttir náðu tali af Guðmundi Hugin Guðmundssyni, skipstjóra á Huginn Ve 55, hafði hann fengið um 400 tonn í fjórum holum en allt er fryst um borð.

Huginn hélt til makrílleitar síðastliðinn fimmtudag en hefur undanfarna daga verið við veiðar.

„Þetta hefur gengið ágætlega en við erum að frysta og mest verið á reki með afla. Við fórum fyrst 70-80 mílur suðaustur af Eyjum. Núna erum við um 40 mílur suður af Vík. Við tökum bara eitt og eitt hol, erum í vinnslu og látum reka í sólarhring.

Brimnes RE og og Álsey VE eru einnig á svæðinu við veiðar. Kap VE og Sighvatur Bjarnason VE höfðu verið að tvílemba með Ísleifi VE og voru farnir að landa. Guðmundur Huginn segir að þokkaleg veiði hafi verið en þó aðeins betri fyrstu dagana.

„Það þarf að elta þetta. Þetta er ekki kyrrt frekar en allur annar fiskur sem hefur sporð. Einhvers staðar er líka meira af þessu og spurning hvort við eltum hann lengra vestur. Það hljóta margir að fara að byrja fljótlega. Ég veit að Aðalsteinn Jónsson fór í nótt og er út af Stokksnesgrunninu að leita þar.“

 

Guðmundur Huginn segir að sjórinn hafi hlýnað um eina gráðu frá því þeir fóru út sl. fimmtudag. Sjávarhitinn á þessum slóðum er núna 9,5 gráður.