föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríll veiðist á stöng í Tálknafirði

23. júlí 2008 kl. 14:15

Tveir rosknir sjómenn réru til fiskjar frá Tálknafirði fyrir helgina. Þeir voru með sína sjóstöngina hvor meðferðis og rennt var fyrir þann gula. Fljótlega var búið að fiska í matinn og þá brá svo við að tveir makrílar hlupu á færið hjá öðrum þeirra. Mikil undrun varð um borð, spikfeitur makríll veiddur rétt við landið.

Frá þessu er skýrt á vef Landssambands smábátaeigenda.

Ekki er þetta þó einsdæmi þar vestra því á  heimasíðu Níelsar Ársælssonar á Tálknafirði segir að fréttir hafi borist af því að markíll hafi hlaupið á færin hjá Þjóðverjum fram af Álftamýri í síðustu viku og eins hafi hjón sem réru á opinni trillu frá Tálknafirði dregið makríl þar í firðinum fyrir fáum dögum.