laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríllin á stefnulausu hraðasundi

3. september 2019 kl. 15:56

Venus NS

Venus NS á heimleið til Vopnafjarðar með góðan afla.

„Það vantar ekkert upp á gönguhraðann hjá makrílnum en hann virðist ekki vera búinn að ákveða hvert hann er að fara. Það hefur komið fyrir að hann gengur hratt í austurátt í eina tvo daga og snýr svo við og gengur vestur eftir að nýju eða í norður. Að þessu sinni byrjuðum við veiðar nyrst í Síldarsmugunni en svo brældi og makríllinn virðist hafa gengið norður fyrir Jan Mayen-línuna.“

Þetta sagði Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venusi NS, í viðtali við heimasíðu Brims núna skömmu eftir hádegi. Venus var þá á heimleið til Vopnafjarðar með um 610 tonn af makríl og bjóst Theódór við því að koma þangað síðdegis á morgun.

„Það er búin að vera fín veiði þegar þokkalega viðrar og að þessu sinni náðum við þremur holum í fyrradag, fyrst eftir að við komum út, en svo brældi og það er leiðindaveður núna,“ segir Theódór en að hans sögn er greinilega mikið magn af makríl á ferðinni.

„Mér skilst að það sé fín veiði syðst í Síldarsmugunni núna en þar hafa rússnesku skipin haldið sig síðustu daga. Það var lítið um að vera á þeim slóðum þegar við fórum út en miðað við makrílmagnið mjög víða og að veðrið á að fara að skána eftir morgundaginn, þá líst mér vel á framhaldið,“ segir Theódór í viðtalinu.