þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríllinn skotinn í burt!

3. ágúst 2011 kl. 15:39

Makríll á handfæri

Sjómenn í Noregi segja að olíurannsóknaskip, sem nota loftbyssur við rannsóknir, hafi fælt makrílinn af miðunum

Norskir handfærakarlar komu með öngulinn í rassinum eftir fyrstu veiðiferð á makríl í byrjun vikunnar. Sjómennirnir kenna olíurannsóknaskipum um að þau hafi skotið makrílnum skelk í bringu í bókstaflegri merkingu og beinlínis fælt hann burt af svæðinu, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Olíurannsóknirnar sem hér um ræðir, svokallað seismikk, fara þannig fram að skip leggja út gríðarlega langa kapla á stóru svæði. Síðan er skotið úr öflugum þrýstiloftbyssum niður í sjóinn. Kaplarnir nema endurkastið af hljóðbylgjunum frá botninum. Þau gögn sem safnað er við þessar mælingar eru notuð til að kortleggja hafsbotninn. Sú mynd sem þar fæst hjálpar mikið til við að meta hvort olía leynist á botninum. Við mælingarnar er hleypt úr loftbyssunum á um 10 sekúnda fresti.

Í upphafi vikunnar fóru um 100 handfærabátar á þekkt makrílmið en þar höfðu farið fram seismikk-mælingar frá 15. júlí. Bátarnir fengu varla bein úr sjó og sjómennirnir eru ekki í vafa um að skothríðin úr loftbyssunum hafi fælt fiskinn frá. Þeir segja að þetta sé versta byrjun á makrílvertíðinni í manna minnum.