mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílráðgjöfin aukin

Guðsteinn Bjarnason
15. maí 2019 kl. 15:06

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Alþjóðlega hafrannsóknaráðið, ICES, hefur ákveðið að auka ráðgjöf sína um makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafi úr 318 þúsund tonnum upp í 770 þúsund tonn.

Ráðgjöf um makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafin hefur verið aukin úr 318 þúsund tonnum upp í 770 þúsund tonn, eða um meira en helming.

Alþjóðlega hafrannsóknaráðið, ICES, skýrði frá þessu í dag, en norsk stjórnvöld fóru fram á það að ráðgjöfin yrði aukin eftir að breytt aðferðarfræði við útreikning á stofnstærð leiddi í ljós að stofnstærðin hafði verið vanmetin í fyrra mati.

Eftir breytinguna hljóðar stofnstærðarmatið upp á 4,2 milljónir tonna í stað 2,35 milljóna tonna. 

Áður en matinu var breytt höfðu strandríkin ákveðið að veiða langt umfram ráðgjöf ársins. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar komu sér saman um að veiða 652 þúsund tonn á árinu. Er þá ótalin veiði Íslendinga og Rússa, þannig að þótt ráðgjöfin hafi nú verið hækkuð má samt búast við því að heildarveiðin geti farið eitthvað fram úr ráðgjöfinni.

Árum saman hefur veiðin verið langt umfram ráðgjöf og var MSCvottun á allar makrílveiðar í Norður-Atlantshafi af þeim sökum afturkölluð nú í mars. Stofninn var metinn undir aðgerðamörkum árið 2018 og var það í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem það gerðist. Hrygningarstofninn hafði stækkað á árunum 2005 til 2011 en farið minnkandi síðan.