laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílráðgjöfin nálgast milljón tonn

Guðsteinn Bjarnason
4. október 2019 kl. 11:12

Alþjóðahafrannsóknaráðið reiknar með 9% ofveiði úr makrílstofninum árið 2020, 26% úr kolmunnastofninum og 31% úr norsk-íslenska vorgotssíldarstofninum.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) gaf 1. október út ráðgjöf sína um veiði úr uppsjávarstofnum í Norðaustur-Atlantshafinu, eins og Fiskifréttir greindu stuttlega frá samdægurs.

Ráðið leggur til að makrílafli ársins 2020 verði ekki meiri en 922 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 770 þúsund tonn og er því um að ræða tæplega 20% aukningu í tillögum ráðsins um afla næsta árs.

ICES áætlar er að heildarafli ársins 2019 verði um 835 þúsund tonn, rúm 9% umfram ráðgjöf.

Ráðgjöfin í makríl er í samræmi við nýtingarstefnu sem á að leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY).

Reikna með ofveiði
Varðandi norsk-íslensku vorgotssíldina leggur ICES til í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2020 verði ekki meiri en 526 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 589 þúsund tonn og er því um að ræða 11% lækkun í tillögum ráðsins um afla næsta árs.

Ástæða þess er fyrst og fremst að stofninn er enn á niðurleið eftir slaka nýliðun um árabil. Áætlað er að heildarafli ársins 2019 verði um 774 þúsund tonn sem er 31% umfram ráðgjöf.

Þá leggur ICES til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2020 verði ekki meiri en 1,161 milljón tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2019 var mjög svipuð eða 1,14 milljón tonn en gert er ráð fyrir að aflinn á árinu verði um 1,44 milljón tonn, 26% umfram ráðgjöf.

Viðræður í október
Strandríkin við Norðaustur-Atlantshaf hafa ekki getað komið sér saman veiðistjórnun á uppsjávarstofnunum þremur, makríl, kolmunna og síld.

Síðar í þessum mánuði eiga viðræður að hefjast, en undanfarin ár hefur bæði Íslendingum og Grænlendingum verið haldið utan við þær. Þess í stað hafa Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar starfað eftir samkomulagi sem tekur ekki tillit til raunveiða Íslendinga, Grænlendinga og Rússa.

Afleiðingin hefur verið sú að stofnarnir hafa allir verið ofveiddir árum saman og hafa veiðarnar misst MSC-sjálfbærnivottun af þeim sökum.

Fulltrúar Íslands hafa lagt áherslu á að samið verði um alla stofnana þrjá í einu, en ekki haft árangur þar. Þegar mætt verður til viðræðna nú innan fárra vikna má ef til vill búast við því að stóraukin makrílráðgjöf auðveldi samkomulag, þó ekkert sé gefið í þeim efnum.

Stórar makríltorfur alls staðar
ICES segir í ráðgjöf sinni að lífmassi hrygningarstofns makríls sé talinn hafa aukist síðan 2007, náð hámarki árið 2014 en verið að minnka síðan. Enn sé hann þó meiri en árið 2008.

Í ráðgjöfinni kemur fram að gögnin sem hún er byggð á gefi misvísandi upplýsingar. Auk þess séu tímaraðir sumra gagnanna enn of stuttar til að hægt sé að byggja á þeim.

Þá greinir ICES frá því að undanfarinn 11 ár hafi uppsjávarútgerðir rekist á stórar makríltorfur um allt veiðisvæðið í Norðaustur-Atlantshafi. Þess vegna telji útgerðirnar stofnstærðina hafa aukist verulega á síðustu árum, og það eigi við um allt svæðið. Þá hafi útgerðirnar tekið eftir því að smærri fiskum virðist hafa fjölgað á síðustu árum, sérstaklega frá árinu 2014.