mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílrannsóknirnar fyrirferðarmiklar

15. febrúar 2013 kl. 12:16

Makríleggjarannsóknir.

Heldur dregur úr úthaldi rannsóknaskipanna þrátt fyrir aukin skylduverkefni.

 

Makrílrannsóknir eru tímafrek viðbót við hefðbundin verkefni rannsóknaskipanna án þess að heildarúthald þeirra sé aukið. Það þrengir svigrúmið til að sinna öðrum þörfum verkefnum. 

Þetta kemur fram í viðtali við Jóhann Sigurjónsson forstjóra Hafrannsóknastofnunar í nýjustu Fiskifréttum. 

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson mun verja 28 dögum til makrílrannsókna á þessu ári og Bjarni Sæmundsson 16 dögum, auk þess sem fyrra skipið verður bundið í úthafskarfarannsóknum í næstum mánaðartíma. 

Fjárskortur hamlar eðlilegri útiveru rannsóknaskipanna sem fyrr. Þannig verður Árnið Friðriksson í aðeins 174 daga á sjó samanborið við 182 daga í fyrra og 199 daga í hittifyrra. Úthald Bjarna Sæmundssonar verður svipað og áður eða 160 dagar. Jóhann segir að miðað við svo fáa daga sé á mörkunum að það borgi sig að gera út tvö skip.

Sjá nánar um verkefnaáætlun rannsóknaskipanna í Fiskifréttum.