miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílskortur ekki komið að sök

Guðsteinn Bjarnason
5. september 2020 kl. 09:00

Ómar Fransson á veiðum á bát sínum, Sævari SF. MYND/Aðsend

Þegar ferðaþjónustan hrundi vegna covid-faraldursins hefur engin eftirspurn verið eftir heitreiktum makríl, sælkerafæðu sem Sólsker á Hornafirði hefur framleitt undanfarin ár.

„Það hefur ekkert komið að sök hjá mér af því að þegar ferðamannabransinn hrundi þá hefur ekkert verið að gera hjá mér í að reykja makríl,“ segir Ómar Fransson sjómaður á Höfn í Hornafirði. 

Hann hefur undanfarin ár keypt makríl til vinnslu frá Fiskkaupum og unnið úr honum sælkerafæðu, heitreyktan makríl sem hann hefur selt undir vörumerki útgerðarfyrirtækis síns, Sólsker hf. Ómar hefur ítrekað unnið til verðlauna fyrir þessa vöru.

„Kaupendurnir voru ferðaþjónustuaðilar hérna í sveitinni og veitingastaðir í Reykjavík sem voru fullir út úr dyrum af ferðafólki. Makríl hef ég ekki reykt síðan í febrúar, held ég. Ég hef verið að reykja ýmislegt annað náttúrlega en það er sama alls staðar, allt botnfrosið.“

Undanfarin ár hafa smábátasjómenn stundað makrílveiðar með góðum árangri, en þetta árið lét hann varla sjá sig í íslenskri landhelgi. Stórútgerðin hefur þurft að sækja hann í Smuguna, ólíkt því sem verið hefur síðustu árin þegar hann kom í stórum stíl inn í íslenska landhelgi.

Hefði engu breytt

Ómar segir þó að úr því engu hefði breytt fyrir sig þótt nóg hefði fengist af makríl því markaðurinn fyrir sælkerafæðuna er hruninn.

„Þetta er bara eins og það er. Þetta fer úr því að vera nóg að gera í þessu yfir í ekki neitt.

Í sumar hefur Ómar verið á strandveiðum á bát sínum, Sævari SF, en sagði sig úr þeim fyrir mánaðamótin júlí-ágúst þegar ljóst þótti að aflaheimildir myndu ekki duga strandveiðunum út ágúst.

„Þá fór ég að veiða kvóta sem ég leigði mér, bæði ufsa og þorsk, en mest af ufsa. Það gekk mjög vel. Ég held ég hafi fengið 34 tonn núna í ágúst. Ég var mjög ánægður með það, held ég hafi hitt á að taka rétta ákvörðun þegar maður heyrði að það væri þessi óvissa með hvað strandveiðarnar entust lengi.“

Eins og fyrirsjáanlegt var orðið entust strandveiðarnar ekki út ágústmánuð. Kvótinn var búinn þegar þriðjungur mánaðarins var eftir, og þá þurftu menn að hætta veiðum og hafa verið harla ósáttir.

Þarf að tryggja dagana

„Þetta þarf að vera eins og um hefur verið talað,“ segir Ómar. „Það þarf að tryggja þessa 48 daga, að menn fái tólf daga í mánuði. Það breytti stöðunni í þessu líka þegar sjávarútvegsráðherra blés af grásleppuveiðarnar þegar menn voru bara í miðri á. Þar af leiðandi bætast við einhverjir tugir báta inn í strandveiðikerfið og þar af leiðandi endist potturinn minna.“

Landssamband smábátaeigenda hefur sent ráðherra beiðni um að strandveiðar verði heimilaðar út september, en Ómar tekur ekki að öllu leyti undir þá kröfu.

„Eins og ég hef sagt við menn, þá finnst mér allt í lagi að taka þá umræðu þegar búið er að festa þessa 48 daga. Þá finnst mér alveg sjálfsagt að lengja tímabilið og menn megi taka þetta á kannski sex mánaða tímabili, en það þarf að gera þetta í réttri röð. Fyrst þarf að festa þessa 48 daga og síðan má taka þessa umræðu á eftir.“

Sjálfur ætlar Ómar að halda áfram að leigja sér kvóta.

„Maður hefur ekki að neinu öðru að hverfa. Það er ekkert að gera í vinnslunni og ekki fer maður á atvinnuleysisbætur. Maður verður að finna sér eitthvað að gera.“