föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílstofninn aldrei mælst stærri

1. september 2016 kl. 14:55

Makríll

Þriðjungur stofnsins eða rúmar 3 milljónir tonna mældist við Ísland.

Niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var í júlímánuði liggja nú fyrir, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar.  

Heildarvísitala makríls var metin 10,2 milljón tonn sem er hæsta mat frá upphafi mælinganna sumarið 2007 og þriðjungs aukning frá 2015. Vísitala makríls innan íslenskar efnahagslögsögu var 3,1 milljón tonn sem er tæp 31% af heildarvísitölu stofnsins. Í samanburði við 2015 jókst lífmassi makríls í íslenskri efnahagslögsögu um 200 þúsund tonn en hlutfallið í íslenskri lögsögu þá var hærra (36%).

Í mælingunni voru þrír árgangar mest áberandi; árgangur 2010 (17% af heildarfjölda einstaklinga), 2011 (20%) og 2014 (17%). Þessi háa vísitala á fjölda tveggja ára (2014 árgangur) er því sterk vísbending um áframhaldandi góða nýliðun í makrílstofninum. Þéttleiki makríls við Ísland var mestur vestan við landið, líkt og var árin 2013 og 2014 en í fyrra var hann mestur sunnan við landið. 

Sjá nánar í Fiskifréttum í dag og á vef Hafrannsóknastofnunar.