þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílstofninn ekki talinn ofveiddur

4. október 2013 kl. 10:08

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Alþjóðahafrannsóknaráðið segir stofnstærðina hafa verið vanmetna undanfarin ár.

Undanfarin ár hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið veitt ráðgjöf samkvæmt aflareglu þar sem aflamarkið ákvarðast af niðurstöðum stofnmatslíkans og var aflamarkið fyrir yfirstandandi ár 542 þúsund tonn. Í ár var ákveðið að styðjast ekki við stofnmatslíkanið. Megin ástæða þess eru óáreiðanleg aflagögn fram til ársins 2006. Gagnagreining bendir til þess að stofnstærðin hafi verið vanmetin undanfarin ár og að ekki sé verjandi að byggja ráðgjöf áfram á þessum gögnum.

Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar. Þar segir ennfremur:

„Vísitölur um stofnstærð makríls frá fjölþjóðlegum eggjaleiðangri sem farinn var í sumar sýna að stofninn hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Þá gáfu niðurstöður fjölþjóðlegs leiðangurs í júlí/ágúst 2013 vísbendingar um vaxandi stofn og góða nýliðun á undanförnum árum. Þetta bendir til þess að þrátt fyrir veiðar umfram ráðgjöf undanfarin ár sé stofninn ekki ofveiddur. Ráðlagt aflamark fyrir árið 2014 tekur mið af þessum upplýsingum og er ákvarðað út frá meðaltali heildarafla síðustu þriggja ára sem er 889 886 tonn. 

Sérstakur fundur um stofnmat á makríl verður haldinn á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í febrúar nk. Þar verður rýnt í öll möguleg gögn sem nýst geta í stofnmati og ný líkön prófuð. Bundnar eru vonir við að áreiðanlegra stofnmat fáist með þeirri vinnu sem hægt verði að nota til að veita ráðgjöf um aflamark í framtíðinni.“ 

Heildarafli þjóðanna fyrir árið 2013 er áætlaður 895 þúsund tonn. Þar af er afli Íslendinga áætlaður um 123 þús. tonn.