fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílungviði klekst út og elst upp við Ísland

30. desember 2013 kl. 13:51

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Vísindalegar niðurstöður sem nú hafa verið birtar benda til þess.

Niðurstöður aldursgreininga á makrílungviði frá 2010 benda til þess seiðin hafi klakist út á sama tíma og hrygning makríls átti sér stað innan íslensku lögsögunnar sama ár. Niðurstöður prófana í reklíkani benda jafnframt til þess að uppruna ungviðisins megi rekja til þessarar hrygningar. Þessar niðurstöður eru fyrstu vísbendingar um að makrílungviði hafi klakist út og alist upp við Ísland. 

Svo segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar en verkefnið var styrkt af AVS sjóðnum og var samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands.

Makríll tók að birtast í sumarsíldveiðum hér við land í nokkrum mæli árið 2005 og veiddust þá 360 tonn af honum, með síldaraflanum. Síðan þá hefur veiðisvæðið breiðst mikið út og aflinn aukist hratt milli ára og náði um 150 þúsund tonnum árið 2012. Stofnstærð makríls er metin þriðja hvert ár, út frá magni hrygndra eggja.

Sumarið 2010 tók Hafrannsóknastofnun í fyrsta sinn þátt í matinu, en þá tóku alls níu þjóðir þátt í rannsókninni, undir stjórn Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Á tímabilinu 9.-22. júní voru tekin svifsýni á Rs. Árna Friðrikssyni á 111 stöðvum á svæði sem náði allt frá Suðausturdjúpi og langt austur fyrir Færeyjar. Útbreiðsla makríleggja náði mun lengra til vesturs en búist var við og staðfesti það í fyrsta skipti að makríll er farinn að hrygna innan íslensku lögsögunnar. 

Árið 2006 varð í fyrsta skipti vart við makríl á fyrsta ári eða svokölluð 0-grúppu seiði í haustralli Hafrannsóknastofnunar. Þá fundust seiði á litlu svæði frá Selvogsbanka að Vestmannaeyjum, en haustið 2010 fundust hinsvegar seiði á fjölmörgum stöðvum, allt frá Höfn í Hornafirði að Látrabjargi. Þá fannst í fyrsta skipti ársgamall makríll á mörgum stöðvum við Suðurland í vorralli Hafrannsóknastofnunar í mars 2011 sem bendir til vetursetu seiðanna hér við land.