þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðar erlendra skipa við Færeyjar valda uppnámi hjá ESB

28. júlí 2011 kl. 11:05

Lafayette, stærsta verksmiðjuskip í heimi.

Í hópi þeirra eru tvö skip skráð erlendis sem eru í eigu Íslendinga að sögn IntraFish

Fjórir erlendir skuttogarar, þar á meðal risaskipið Lafayette og tvö erlend skip í eigu Íslendinga, hafa fengið leyfi til að taka þátt í að veiða eða vinna makríl af færeyska kvótanum á þessari vertíð, að því er fram kemur á vef IntraFish. Þetta hefur valdið miklum úlfaþyt í hópi útgerðarmanna uppsjávarveiðiskipa í Noregi og ESB sem halda því fram að þessar veiðar séu ólöglegar. Alls hafa veiðst um 44.500 tonn af makríl af kvóta Færeyinga.

Þrjú þessara skipa, Lafayette, Gloria og Victoria, fengu leyfi til að taka við makrílafla af öðrum skipum og vinna hann um borð. Intra Fish segir að Gloria og Victoria séu í eigu Íslendingsins Haraldar Jónssonar (sem rak áður Sjólaskip). Þess má geta að það eru Úthafsskip ehf. í Hafnarfirði sem standa á bak við útgerð Gloria og Victoria. Skipin eru skráð erlendis og þau hafa verið að veiða makríl og hrossamakríl  úti fyrir ströndum Marokkó og Máritaníu, samkvæmt upplýsingum Fiskifrétta.

Fjórða skipið, Franzisca, sem fékk bæði leyfi til að veiða makríl við Færeyjar og vinna hann um borð, er í eigu hollenska fyrirtækisins Van der Zwan. Franzisca siglir undir flaggi frá Perú.

Færeyingar segja að ástæðan fyrir því að erlendu vinnsluskipin fengu leyfi til að taka við makrílafla sé löndunarbann sem sett var á færeysk makrílskip í höfnum Noregs og ESB. Færeyingar hafi ekki næga vinnslugetu í landi til að taka við öllum makrílaflanum. Færeyingar segja ennfremur að leyfið til Franzisca hafi verið veitt í undantekningartilviki vegna brunans á vinnsluskipinu Athena í vor.

Fulltrúar sjávarútvegsins í ESB og Noregi telja að veiðar þessara erlendu skipa samrýmist ekki reglum NEAFC (Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðiráðsins) og hafa hvatt til að NEAFC rannsaki hvort hér sé ekki um ólöglegar veiðar að ræða.