laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðar Norðmanna loksins komnar almennilega í gang

13. september 2011 kl. 09:00

Makríll

Meðalverð á mörkuðum í síðustu viku samsvaraði 275 ISK á kíló

Loksins fór makrílveiðin almennilega í gang hjá norskum skipum. Í síðustu viku veiddust alls 35.800 tonn. Veiðin var treg framan af vikunni en á föstudaginn veiddust 14 þúsund tonn. Ágæt veiði var um helgina en þá fengust um 15 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag.

Í byrjun vikunnar voru norsku makrílskipin að veiðum á svæði norður af ”Tampatå”. Síðan dreifðist flotinn vestur og suður í ESB lögsöguna. Allgóð veiði var rétt utan færeysku lögsögunnar. Áta í makrílnum þar varð þó til þess að flotinn dró sig til baka.

Makríllinn er frá 365 grömmum og upp í 475 grömm að þyngd. Meðalvigtin er 409 grömm. Verð á makríl er mjög gott á uppboðsmörkuðum í Noregi í síðust viku, mun hærra en það lágmarksverð sem nýlega var samið um. Á mörkuðunum hafa fengist frá 10,05 norskum krónum á kílóið, (215 ISK), upp í mest 14,81 NOK (317 ISK). Meðalverðið í síðustu viku var 12,86 NOK á kílóið, (275 ISK).