föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðum við Grænland lokið

16. september 2016 kl. 10:45

Makrílveiðar á grænlenska skipinu Ilivileq (Mynd: Sigurður Davíðsson).

Alls veiddust 35.000 tonn af 85.000 tonna kvóta.

Makrílveiðum í grænlenskri lögsögu er lokið á þessari vertíð. Vel innan við helmingur kvótans náðist. Samkvæmt tölum á grænlenska vefnum Sermitsiaq nam makrílaflinn í ár 35. 410 tonnum af 85.000 tonna kvóta. 

Árangurinn í ár er litlu betri en í fyrra þegar náðist að veiða rúm 32.000 tonn. Mun betur gekk árin á undan. Árið 2014 náðist að veiða rúm 78.000 tonn og árið 2013 veiddust tæp 54.000 tonn.  

Veiðarnar stunduðu grænlensk skip og leiguskip frá Íslandi, Færeyjum og Rússlandi. Erlendu skipin hafa nú horfið á brott af Grænlandsmiðum en grænlensku skipin hafa um nokkurt skeið stundað veiðar á norsk-íslenskri síld við Austur-Grænland. 

Hluta makrílkvótans, eða 30.000 tonnum, var úthlutað til fyrirtækja í Grænlandi sem ekki höfðu yfir skipi að ráða. Sex fyrirtæki hrepptu þessa kvóta með hlutkesti og komu 5.000 tonn í hlut hvers. Aðeins tveimur fyrirtækjanna tókst að útvega sér leiguskip til veiðanna.

Fyrirkomulag þessarar úthlutunar hefur sætt gagnrýni. Haft er eftir forstjóra skipamiðlunarfyrirtækisins Atlantic Shipping í Kaupmannahöfn, sem árum saman hefur útvegað grænlenskum fyrirtækjum leiguskipi, að úthlutun kvótans hafi farið fram alltof seint á árinu. Tilkynnt hafi verið um niðurstöðuna 31. maí en kvótaúthlutunin hafi þurft að liggja fyrir í febrúar/mars í seinasta lagi svo svigrúm skapaðist til að leigja skip. Þá hefði veiðigjaldið verið of hátt (26 ISK) verið alltof hátt og reglur um frá hvaða löndum leiguskipin mættu koma alltof strangar.